Flugskóli Íslands brautskráði 58 nemendur við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu á miðvikudaginn en þetta er stærsti hópur atvinnuflugmanna sem nokkur skóli hefur útskrifað hér á landi að því er segir í fréttatilkynningu. Fram kom í ræðu Baldvins Birgissonar, skólastjóra Flugskóla Íslands, að vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu kallaði atvinnulífið á fagmenntaða flugmenn sem aldrei fyrr. Flugskóli Íslands er einn af undirskólum Tækniskólans.
Fjögur fyrirtæki veittu viðurkenningu fyrir bestan heildarárangur í atvinnuflugmannsnámi; Air Atlanta, Icelandair, Wow Air og Norlandair og hlaut Daníel Örn Steinarsson þær viðurkenningar. „Einnig hlutu Steinar Andri Einarsson og Snædís Erla Leósdóttir viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Til þess að skera úr um röðun á hæstu einkunn þurfti að nota tvo aukastafi en sex nemendur skólans voru með 9,7 í lokaeinkunn. Allir þessir sex nemendurnir fengu að launum flugtíma í þotuflughermi skólans.“
Þá segir að nemandi ársins hjá Flugskóla Íslands, valinn af stjórnendum skólans, væri Sigurður Ingi Jónsson. „Sigurður var valinn fyrir áræðni og elju að ljúka atvinnuflugmannsnámi 58 ára að aldri. Norlandair gefur nemanda ársins gjafabréf.“