Costco hefur þegar lækkað verð

Um er að ræða sex þúsund króna verðlækkun.
Um er að ræða sex þúsund króna verðlækkun. Af Facebook

Þrátt fyrir að ekki sé liðin vika frá opnun vöruhúss Costco í Kauptúni í Garðabæ, hefur verð á nokkrum vörum þegar verið lækkað. Má sem dæmi nefna 55" Philips-sjónvarp sem kostaði 99.999 krónur þegar verslunin opnaði á þriðjudag, en kostar nú 93.999. Er því um að ræða sex þúsund króna verðlækkun.

Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Íslandi, segir að stjórnendur verslunarinnar þurfi að vera á tánum enda gefi verslunin sig út fyrir að vera sú ódýrasta á markaðnum. „Ef það þarf að lækka verð til að ganga úr skugga um að við séum ódýrust á markaðnum þá gerum við það,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Viljum ekki vera sigruð þegar kemur að verði“

Yfir 50 þúsund manns hafa nú gengið í hópinn Keypt í Costco Ísl.- Myndir og verð og er þar stöðug umræða um vörur verslunarinnar. Var þar meðal annars bent á þessa verðlækkun og ljóst er að viðskiptavinir verslunarinnar fylgjast vel með.

Vig­elskas segir að ekki hafi margar vörur verið lækkaðar í verði. „En þetta er hluti af okkar stefnu. Kjörorðin okkar eru að við séum með vandaðar vörur á lægsta mögulega verðinu,“ segir Vigelskas. „Fólk borgar fyrir aðild hér svo það býst auðvitað við besta verðinu.“

Hann segir þó að verð sé ekki alltaf lækkað þegar breytingar verða hjá samkeppnisaðilanum, en ef um vandamál sé að ræða og ekki sé hægt að standa undir kjörorðunum sé brugðist við. „Við viljum ekki vera sigruð þegar kemur að verði,“ segir hann.

Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Íslandi.
Brett Vig­elskas, fram­kvæmda­stjóri Costco á Íslandi. mbl.is/Hanna

Mjög ánægður með fyrstu dagana

Þá segist Vigelskas vera alsæll með þessa fyrstu daga og að allt hafi gengið mjög vel. „Ég er ofboðslega ánægður með þessa fyrstu daga. Þetta gæti ekki hafa gengið betur,“ segir hann. Vigelskas segir góðu undirtektirnar þó ekki hafa komið á óvart. „Við bjuggumst alveg við þessu.“

En hversu margir hafa komið í verslunina síðan hún var opnuð á þriðjudag? „Þúsundir og örugglega tugir þúsunda og margir oftar en einu sinni,“ segir Vigelskas glaður í bragði. „Allir hafa verið mjög þolinmóðir þrátt fyrir að það hafi verið mikið að gera. Yfir höfuð held ég að fólk sé bara mjög ánægt.“

Gíraffinn fær hvíld frá almenningi

Um 260 manns eru nú í vinnu hjá versluninni hér á landi, en Vigelskas segir að starfsmannahópurinn muni að öllum líkindum stækka haldi þessi þróun áfram. „Þá verða mjög góð tækifæri fyrir fólk að koma og vinna hjá okkur,“ segir hann.

Blaðamaður mátti að lokum til með að spyrja framkvæmdastjórann hvort gíraffinn tignarlegi sem tók á móti viðskiptavinum á gangi verslunarinnar sé seldur, enda er hann ekki að finna þar lengur. Vigelskas hlær en segir gíraffann ekki hafa farið langt. „Hann er ekki lengur frammi í versluninni en er enn þá á bak við hjá okkur. Hann er bara að fá smá hvíld frá almenningi,“ segir hann og hlær.

Gríðarlegur fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Costco síðustu …
Gríðarlegur fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Costco síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert