Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson lítur á sig sem sterkasta mann heims og segir dómaraskandal hafa haft sigurinn af sér, en keppninni sterkasta manni heims lauk í dag með sigri breska kraftamannsins Eddie Hall.
Vafaatriði kom upp á mótinu þegar dómari svipti Hafþór einni lyftu í víkingapressu en þessi eina lyfta skipti sköpum um úrslit keppninnar, sem alls stóð yfir í níu daga. Hefði Hafþór fengið hana gilda hefðu þeir Eddie skipt með sér stiginu sem fór allt til Eddie og hefðu endað jafnir í efsta sæti. Þar sem Hafþór sigraði í steini hefði hann sigrað mótið, en sigur í þeirri grein hefur úrslitaatkvæði ef keppendur eru jafnir.
Hafþór setti inn formlega kvörtun og fór fram á að lyftan, sem hann segir hafa verið gilda, yrði skoðuð í myndavélum en beiðninni var hafnað. „Þeir höfnuðu kærubeiðninni og skoðuðu ekki myndavélarnar, sem varð til þess að ég fékk ekki lyftuna gilda,“ segir Hafþór sem er vægast sagt ósáttur við dómgæsluna og skipuleggjendur mótsins.
Þetta er í þriðja sinn sem Hafþór hafnar í öðru sæti í keppninni og í sjötta sinn sem hann kemst á verðlaunapall. Hann hefur aldrei sigrað. „Það er svekkjandi þegar þegar eitthvað er tekið af manni sem maður hefur unnið hörðum höndum fyrir,“ segir Hafþór.
Fyrir utan að hafa misst af titlinum „sterkasti maður heims“ varð Hafþór af rúmum tveimur milljónum króna sem munar á fyrsta og öðru sæti í verðlaunafé. Hann segist þó ekki taka þátt í keppninni vegna peninganna, enda séu engin sérstök verðlaun fyrir efstu sætin á mótinu. „Mig langar að vera sterkasti maður heims, og ég lít á mig sem sterkastan,“ segir Hafþór sem viðurkenndi fyrir blaðamanni að þessi niðurstaða lægi þungt á sér.
Hann segist spyrja sig hvort það sé þess virði að standa í þessari keppni þegar framkvæmdin sé þessi, en segir í sömu andrá að hann myndi alltaf sjá eftir því ef hann nýtti ekki bestu árin til þess að reyna að ná þeim áfanga. „Ég gæti ekki hætt, ég myndi sjá eftir því alla ævi. Ég er 28 ára í dag og er að bæta mig með hverju árinu,“ segir hann.