Fyrst núna að upplifa þetta sem sigur

Vilborg Arna ásamt móður sinni og vinum við komuna heim …
Vilborg Arna ásamt móður sinni og vinum við komuna heim til Íslands í gærkvöldi. Eins og sjá má á myndinni var gleðin allsráðandi. mbl.is/Ófeigur

Þegar heim er komið fer maður fyrst að meðtaka árangurinn og upplifa þetta sem einhverskonar sigur. Þetta segir Vilborg Arna Gissurardóttir Everest-fari, sem kom heim til Íslands á ellefta tímanum í gærkvöldi. Fjölskylda hennar og vinir tóku á móti henni og féllu fjölmörg gleðitár, enda sigraðist Vilborg á verkefni sem hún tók sér fyrir hendur í þriðja skipti eftir að hafa ekki komist á toppinn í fyrri tvö skiptin.

„Þetta er búið að vera langur tími á ferðalagi,“ segir Vilborg Arna í samtali við mbl.is og bætir við að nú geti hún farið að slaka á með ferðalagið sjálf, „ákveðið spennufall,“ segir hún hlæjandi. En ætlar Vilborg Arna að fara að slaka á almennt? „Já, ég ætla að sofa í svona viku allavega,“ segir hún létt í bragði.

Óvissudagurinn 20. maí

Hinn 20. maí lagði Vilborg af stað úr fjórðu og hæstu búðum Everest-fjalls á toppinn. Hún þurfti þó frá að hverfa vegna veðurs og dvaldi í efstu búðum í einn dag þangað til hagstæðari veðurgluggi opnaðist. Hinn 21. maí hélt hún svo á fjallið að nýju og tókst ætlunarverk sitt. Þetta er þriðja tilraun Vilborgar til að ná efsta tindi heims. Tvisvar varð hún frá að hverfa vegna náttúruhamfara. Í ár tókst henni ætlunarverkið.

Spurð hvernig henni hafi liðið þennan sólarhring sem hún þurfti að bíða í óvissu um hvort hún gæti reynt aftur segir Vilborg að í fyrsta lagi sé mjög erfitt að vera í þessari miklu hæð, en búðirnar eru í tæplega 8 þúsund metra hæð. „Þetta reynir rosalega á mann. Það er erfitt þegar maður er lengur í hæðinni, en það sem var gott við þessa ákvörðun er að við fórum ekki út og áfram í þetta veður, sem var tvísýnt. Mér leist ekki á aðstæður og fannst þetta ekki í lagi og var ekki til í að taka þátt í slíku,“ segir Vilborg Arna. „Ég var tilbúin að bakka heldur en að fara út í eitthvað sem mér fannst ekki 100% í lagi.“

„Ég var rosalega tilbúin þarna 21. maí. Fann innra með mér að ég ætlaði alla leið og lenti ekki á neinum vegg,“ segir hún um sjálfan toppdaginn. Þá hafi hún ekki fundið fyrir yfirþyrmandi þreytu sem á það til að hrjá marga í svona hæð. „Ég var 100% tilbúin þennan dag og það skilaði sér alla leið upp og alla leið niður, sem er ekki síður mikilvægt.“

„Velkomin heim Vilborg“ tók á móti Everest-faranum á Keflavíkurflugvelli.
„Velkomin heim Vilborg“ tók á móti Everest-faranum á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Ófeigur

Þykir vænst um vináttuna

Vilborg segist sérstaklega taka tvennt með sér frá þessari ferð. Í fyrsta lagi þyki henni mjög verðmætt að hafa farið í þriðja skiptið. „Annars hefði ég hugsað um það endalaust alla ævi hvernig þetta væri og hvað ef og allt það,“ segir hún og bætir við að í þriðja skiptið sé ýmislegt sem hún hafi verið hræddari við en áður þegar hún vissi ekki jafnmikið um aðstæður. Þá hafi hún ekki tekið hlutina sem jafn sjálfsagða í þessum leiðangri og áður. „Væntingarnar voru lágstemmdari.“

Hitt atriðið sem Vilborg segir að standi upp úr er vinátta hennar og sjerp­ans Tenji sem var með henni í ferðinni. Þau voru aðeins tvö þar sem ekki var um almenna ferð að ræða og segir Vilborg Arna að vinna þeirra saman á fjallinu hafi verið mjög góð. „Ég kem heim með alveg ómetanlega vináttu í farteskinu. Mér þykir eiginlega vænst um það,“ segir Vilborg Arna.

Hvað tekur svo við?

En hvað tekur við eftir að hafa lokið svona ferðalagi?

Vilborg Arna segir að nú ætli hún að hitta fjölskyldu og vini. „Ég er orðin rosalega vinkonuþyrst eftir þrjá mánuði í burtu,“ segir hún hlæjandi, en nokkrar vinkonur hennar mættu einmitt út á völl til að taka á móti henni. Hún segist svo ætla að slappa af, mögulega þó við eitthvað sem sé „ekki jafn líkamlega krefjandi“ og ferðin á Everest og segist hún til dæmis sjá fyrir sér sund- og hjólaferðir.

Munum við sjá meira af þér á næstunni í svona stærri ferðum?

„Spurðu mig að því eftir tvo mánuði,“ segir Vilborg, sem enn á ný gat ekki leynt stóru brosi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka