Forsætisráðuneytið hefur keypt eina bifreið frá árinu 2014 og var hún keypt að undangengnu útboðsferli hjá Ríkiskaupum. Bifreiðin sem keypt var er af tegundinni Mercedes Benz S 350 Blue Tec Sedan árgerð 2015 og er eldsneytisgjafi hennar dísilolía.
Kemur þetta fram í svari Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns VG, þar sem hún spyr um bifreiðakaup ráðuneytisins.
Ennfremur kemur fram í svari Bjarna að bifreiðakaup ráðuneytisins hafi verið í samræmi við markmið tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi. Samkvæmt skilmálum útboðsins voru gerðar tilteknar öryggis-, umhverfis- og gæðakröfur, þar á meðal var kveðið á um að bifreiðin skyldi vera umhverfisvæn, þ.e. hvað varðar koltvísýringsmengun og sparneytni.
„Orkugjafar sem til greina komu í útboðslýsingu voru bensín, dísill eða rafmagn. Bifreiðar sem knúnar voru áfram með vélum sem nota samspil þessara orkugjafa komu einnig til greina. Í útboðsskilmálum var nánar tiltekið að CO2 mengun skyldi ekki vera yfir 170 g/km og að eyðsla skyldi vera undir 7 lítrum/100 km í blönduðum akstri. Við útboð vegna bifreiðakaupa í framtíðinni mun ráðuneytið, eins og áður, leitast við að gæta ýtrustu öryggis-, umhverfis- og gæðakrafna og tekur þar m.a. mið af ályktun Alþingis um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem og fyrirhugaðri samgöngustefnu fyrir Stjórnarráðið,“ segir að endingu í svari ráðherra.