Fylgdarlausu barni synjað um hæli

Sextán ára drengurinn er samkynhneigður og hefur orðið fyrir síendurteknu …
Sextán ára drengurinn er samkynhneigður og hefur orðið fyrir síendurteknu ofbeldi í heimalandinu vegna þess. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sextán ára marokkóskum dreng sem kom til Íslands í desember á síðasta ári hefur verið synjað um hæli hér á landi og verður að öllum líkindum vísað úr landi. Lögfræðingur og talsmaður drengsins, Arndís A. K. Gunnarsdóttir hefur kært ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. 

Drengurinn er fylgdarlaus samkvæmt skilgreiningu, en er hér ásamt eldri bróður sínum sem er 21 árs og vill koma honum í öruggt skjól. Þar sem systkini yfir 18 ára aldri eru ekki lengur talin fjölskyldumeðlimir yngri systkina sinna hefur bróðirinn ekki forræði yfir drengnum. Bróðirinn sækir einnig um hæli hér á landi og hafa þeir fengið að dvelja saman undir eftirliti Barnaverndar.

„Hann er fylgdarlaust barn, þó hann sé með bróður sínum,“ segir Arndís í samtali við mbl.is.

Orðið fyrir miklu ofbeldi í heimalandinu

Sextán ára drengurinn er samkynhneigður og hefur orðið fyrir síendurteknu ofbeldi í heimalandinu vegna þess og er það meginástæða flótta bræðranna. Eftir komuna hingað til lands hefur drengurinn sagt frá kynhneigð sinni og notið stuðnings Samtakanna 78.

Talsmaður og lögfræðingur drengsins lýsir stórbættri líðan hans eftir að hann komst í öryggi og getur drengurinn í fyrsta skipti rætt þessi mál og fengið um þau fræðslu og stuðning. Þá hefur formaður Samtakanna 78, María Helga Guðmundsdóttir, tjáð sig opinberlega um málið, drengnum til stuðnings.

Spænsk stjórnvöld hafa samþykkt að taka við bræðrunum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ekki er þó öruggt að bræðurnir fái hæli á Spáni, sér í lagi sá eldri og óvíst að þeir muni njóta öryggis þar í landi. Tölulegar upplýsingar staðfesta að 99,4 % umsókna um hæli frá Marokkóbúum sé synjað og þeim snúið aftur til heimalandsins frá Spáni. Þá hefur Spánn fengið ávítur fyrir að vísa umsækjendum um hæli frá án þess að umsókn þeirra fái efnislega skoðun.

Bræðurnir verða líklega aðskildir á Spáni

„Af því að hann er fylgdarlaust barn og bróðir hans er einhleypur fullorðinn karlmaður þá eru allar líkur á því að þeir verði aðskildir við komuna til Spánar. Fylgdarlaus börn eiga að vera sett í tiltekin úrræði þó við höfum áhyggjur af því að Spánn muni ekki sínar skuldbindingar í þeim efnum,“ segir Arndís.

Lögfræðingur bræðranna er lögfræðilega ósammála niðurstöðu Útlendingastofnunar, sem er grundvöllur kærunnar til kærunefndar. Þá er drengurinn í tvöfalt veikri stöðu, sem fylgdarlaust barn annars vegar og vegna kynhneigðar sinnar hins vegar.

Engin ástæða til að senda hann úr landi

Hópur sem hefur áhyggjur af máli bræðranna bendir á að Ísland hafi lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samkvæmt honum má færa rök fyrir að vegna batnandi hag drengsins hér, sé engin sannfærandi ástæða til að senda drenginn úr landi. Íslensk lög gefa stjórnvöldum rúmar heimildir til að opna mál þeirra beggja hér og veita þeim skjól. Hér, sem endranær, vísa íslensk stjórnvöld í Dyflinnarreglugerðina sem grundvöll þess að senda bræðurna til Spánar í stað þess að afgreiða mál þeirra hér.

Eins og ítrekað hefur komið fram er ekkert í þeirri reglugerð sem skyldar eða hvetur til þess að Ísland sendi frá sér flóttafólk og því má frekar segja að hér sé um stefnu og afstöðu stjórnvalda að ræða frekar en lagalega skyldu þeirra, kemur fram í tilkynningu frá hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert