„Húsbók“ fylgi með seldu húsnæði

Veggjatítlur eru mikill skaðvaldur.
Veggjatítlur eru mikill skaðvaldur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á ráðstefnu um veggjatítlur og myglusveppi sem var haldin á Nauthól í morgun lagði Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, til að eins konar húsbók fylgdi með hverju húsnæði sem keypt væri þannig að nýir eigendur geti séð þær endurbætur sem hafi verið gerðar á húsnæðinu. 

Líkti hún þessu við smurbók sem fylgdi með bílum.

Með þessu væri auðveldara að tryggja nýja eigendur fyrir skakkaföllum af völdum veggjatítla eða myglusveppa og einnig væri auðveldara að veita þeim lán.

Seljandi myndi þá láta ástandsskoðun frá fagaðila fylgja við sölu húsnæðisins þar sem viðhaldið hefur verið skráð niður.

Katrín benti á mikilvægi þess að auka forvarnir á meðal almennings vegna þessara vágesta, til dæmis varðandi rétt rakastig, og að allar upplýsingar verði tiltækar á einum stað.

Hún nefndi að vátryggingar bæti eingöngu tjón sem eru skyndileg og ófyrirséð.  Þau nái ekki til tjóna sem eiga sér stað á löngum tíma.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við Háskóla Íslands, Mannvirkjastofnun, Nýsköpunarmiðstöð, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðlagatryggingu Íslands, boðaði til ráðstefnunnar. Þar var meðal annars fjallað um hlutverk opinberra aðila vegna tjóna á fasteignum sem hljótast af þessum vágestum.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Afar snúin mál

Benti hún jafnframt á dóma sem hafa fallið í tengslum við veggjatítlur en þar höfðu eigendur sótt fyrri eigendur til saka. Eitt dæmi tók hún frá árinu 2001 þegar héraðsdómur dæmdi seljanda til að veita afslátt vegna leynds galla. Hæstiréttur staðfesti síðar dóminn. Katrín sagði mál sem þessi afar snúin, því erfitt getur reynst að finna hver ber ábyrgð á vandanum.

Hún sagði að hjá einu tryggingarfélagi sem hún ræddi við hafi fimm tilvik vegna altjóns af völdum veggjatítlu komið upp á síðustu 30 árum. Hjá öðru tryggingafélagi hafði ekkert slíkt tilvik komið upp. Hún hvatti fólk til að tilkynna um atvik sem þessi. „Það er engin skömm að lenda í svona,“ sagði hún.

Í máli Katrínar kom einnig fram að hér á landi séu 4.672 timburhús sem eru meira en 50 ára gömul, sem nemur þremur prósentum allra húsa hérlendis. Að tryggja slík hús geti reynst mjög dýrt. Krefjast þyrfti þess að fasteignin yrði ástandsskoðuð mjög vel áður en tryggingin yrði veitt. Einnig sé spurning hvort fólk telji sig þurfa slíka tryggingu þegar komi í ljós að húsið sé í góðu lagi eftir ástandsskoðun.

Víða á Norðurlöndunum er boðið upp á tryggingu vegna skemmda, meðal annars af völdum vágesta. Þar eru tryggingarnar háar og gerð er krafa um viðamikla ástandsskoðun áður en tryggingin er veitt.

mbl.is/Sigurður Bogi

Misjöfn staða lánveitenda og lántaka

Katrín velti því upp hvað lánveitendur geti gert þegar hús verður ónýtt og veðið sömuleiðis. Þeir séu í misjafnri stöðu til að taka á málunum. Til dæmis geta lífeyrissjóðir átt erfitt um vik. „Bankar og íbúðalánasjóður hafa og geta gert eitthvað í þessum efnum en það breytir því ekki að staða lántakenda er gríðarlega ólík,“ sagði Katrín og tók fram að lán á eigninni geta verið mishá.

Þá kemur upp spurningin um hvaða réttlæti felst í því þegar annar fær 40% bætt en hinn 85%. „Það er engin ein patentlausn á þessu. Við þurfum í sameiningu að finna lausn sem virkar, þannig að það komi allir sem best frá þessu.“

Lirfurnar stærsta áhyggjuefnið

Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur við Háskóla Íslands, sagði að lirfur veggjatítla væru stærsta vandamálið. Þær geti grasserað í timbri í tvö til þrjú ár. Lirfurnar lifa í 22 til 23 gráðu hita og þrífast ekki ef hitinn fer yfir 28 gráður. Ef hitinn fer undir 12 gráður stöðvast vöxtur þeirra alfarið. Hagstæðustu skilyrðin eru við 30% raka í viði.

Björn benti á fjölda umfjallana um veggjatítlur á Timarit.is og taldi níu á síðustu sjö árum, sem er nokkur aukning frá síðustu áratugum. Hann sagði aukninguna áhyggjuefni.

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. mbl.is/Golli

„Sprenging“ vegna mygluvanda

Varðandi vanda í tengslum við fúa og myglu var fjallað 160 sinnum á Timarit.is um húsamyglumál á árunum 2010 til 2017. Til samanburðar voru þau fimm á árunum 1990 til 1999. Hann sagði sprengingu hafa orðið í slíkum málum og að „eitthvað verulega mikið“ væri að.  Sjálfur hefur hann séð þrjú alvarleg dæmi um þetta frá árinu 1979.

Björn sagði myglusvepp geta vaxið í mjög breiðu umhverfi. Kjöraðstæður hans séu þegar rakastigið fer yfir 90% og lofthiti sé 20 til 35 gráður.

Hann benti á að loftraki væri hár hérlendis, sérstaklega á suðvesturhorninu. Í samantekt sinni sagði hann að loftraki væri nægur fyrir veggjatítlur hérlendis en hitastigið væri of lágt til að þær þrífist utandyra. Hann sagði að myglusveppur geti þrifist utandyra en vegna lágs hitastigs sé vöxturinn hægur.

Björn sagði mikilvægt að greina vandann og meta tjónaáhættuna til að sjá hvar við stöndum. Orsakatengsl og ábyrgð væru flókin úrlausnarmál sem geti dregist á langinn að leysa. Því þurfi að finna leið til að bæta fólki tjón úr tryggingum eða einhvers konar ábyrgðarsjóði. „Þetta er stórmál. Það reynir virkilega á að finna einhverja lausn,“ sagði hann.

Glæra frá Birni um vaxtaskilyrði myglusvepps.
Glæra frá Birni um vaxtaskilyrði myglusvepps.

Þörf á meiri rannsóknum

Dr. Johan Mattsson frá Noregi starfar við skemmdir vegna myglu í Noregi. Flest málin sem tryggingafélög hafa haft þar á sinni könnu hafa verið við strendurnar þar sem rakinn er meiri.

Hann velti fyrir sér hvort ástæðan fyrir vágestunum hér á landi væru loftslagsbreytingar, breytingar á notkun bygginga eða jafnvel byggingaefnið. Hann sagði þörf á frekari rannsóknum.

Glæra frá Johan Mattsson um veggjatítlur.
Glæra frá Johan Mattsson um veggjatítlur.

Hærra hlutfall hér á landi

Hulda Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, gerði grein fyrir hlutverki opinberra aðila vegna ótryggjanlegra tjóna á fasteignum. Þar kom fram að þau tjón sem ekki fást bætt úr vátryggingum séu tjón sem eiga sér langan aðdraganda. Slík tjón séu meðal annars af völdum myglusvepps, veggjatítla, rottumítla, siga á húsum og landbrots.

Hún lagði áherslu á að ef engin brunatrygging er fyrir hendi fæst engin viðlagatrygging.

Skemmdir á húsnæði.
Skemmdir á húsnæði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hulda benti á rannsóknir þar sem kemur fram að talsvert hærra hlutfall af raka- og mygluskemmdum sé á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum.  Hún sagði að á nokkurra ára fresti berist fréttir af tjóni af völdum veggjatítlu, nýleg dæmi séu um eyðileggingu af völdum rottumítla, nokkur dæmi séu um hús sem hafi eyðilagst vegna jarðsigs og nokkur dæmi séu um hús sem hafi brotnað vegna ágangs sjávar.

Hún fagnaði því að fólk hafi komið saman á ráðstefnuna til að ræða saman og vonaðist til að ráðstefnan muni fyrirbyggja að við sitjum uppi með verra ástand eftir nokkur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert