Jákvæð ummæli Bandaríkjaforseta

Forsíða Presidental quote.
Forsíða Presidental quote.

Kolbrún Kristjánsdóttir ljósmyndari í Washington D.C. hefur verið gagntekin af ræðum og skjölum allra forseta Bandaríkjanna til að finna jákvæðar tilvitnanir til að para við ljósmyndir sem hún hefur tekið víðs vegar um borgina. Ekki minni tími hefur farið í samskipti við listamenn og rétthafa verka sem voru mynduð. Útkoman er Presidential Quote, bók í dagatalsformi með fallegri ljósmynd og jákvæðri tilvitnun fyrir hvern dag ársins.

Kolbrún hefur búið í Washington D.C. síðustu fimm ár ásamt fjölskyldu sinni. Samhliða rekstri heimilisins hefur hún unnið að ýmsum ljósmyndaverkefnum hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) og er meðlimur í ljósmyndaklúbbi. Fyrir rúmu ári fékk hún hugmynd að verki sem hefur átt hug hennar allan og kom út í apríl. Verkið er 366 síðna ljósmyndabók með jákvæðum tilvitnunum allra forseta Bandaríkjanna frá George Washington til Donald Trump. Ljósmyndirnar í bókinni eru allar eftir Kolbrúnu, teknar í Washington D.C. af höggmyndum, listaverkum, byggingum, söfnum, minnismerkjum og þjóðgörðum. Til að verkið sé fyrir augum eigandans er það í formi dagatals sem hægt er að nota ár eftir ár. Falleg ljósmynd og jákvæðni fyrir hvern einasta dag frá öllum forsetum Bandaríkjanna.

Ferðalag listamanns frá hugmynd til útgáfu

Kolbrún við skúlptúr Jeff Koons, Kiepenkerl frá 1987.
Kolbrún við skúlptúr Jeff Koons, Kiepenkerl frá 1987. Ljósmyndir/Úr myndasafni Kolbrúnar


„Því miður lifum við á þannig tímum að mestallur fréttaflutningur snýst um hneykslismál og hörmungar. Eftir að hafa móttekið of mikið af slíkum fréttum ákvað ég að nýta krafta mína og reynslu til þess að láta gott af mér leiða og gefa von. Mér fannst að það hlyti að vera fullt af jákvæðri visku úr fortíðinni sem koma þyrfti upp á yfirborðið. Ég ákvað að ég skyldi finna hana, hvernig svo sem ég færi að því, og koma henni svo út í alheiminn,“ segir Kolbrún.

Kolbrún segist hafa tekið sér góðan tíma í hugmyndaferlinu, leyft hugmyndinni að gerjast um stund, en síðan orðið ákveðin við vinnuna í aðdraganda síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum. Baráttan um útnefningu flokkana hafi verið bæði hörð og óvægin að hennar mati. „Ég kom mér af stað í ljósmyndunina aftur eftir margra ára hlé og safnaði þúsundum mynda frá Washington D.C. og nágrenni. Ég tók myndir á öllum tímum sólarhringsins og leitaði að nýjum sjónarhornum á mörg kennileiti borgarinnar. Ég hugsa að ég hafi ekki alveg gert mér grein fyrir því hvað þetta yrði mikil vinna og erfiði þarna í upphafi enda sé ég þetta núna sem nokkurs konar ferðalag mitt sem listamanns sem hófst með hugmynd og endaði með útgáfu.“ Hún segir enda marga hafa furðað sig á því af hverju hún var að leggja út í þetta.

Stefnan var alla tíð að vinna flesta þætti verksins sjálf, þó að hjálp hafi verið þegin við umbrot í frumhönnun og við leit að jákvæðum ummælum. Hún viðurkennir að oft hafi verið djúpt á þeim. Þó að nóg sé af vefsíðum sem sérhæfi sig í ummælum segir Kolbrún málin hafa vandast þegar hún vildi finna frumheimildir, hvenær ummælin voru viðhöfð, við hvaða tilefni o.s.frv.

Falleg ljósmynd og jákvæð tilvitnun fyrir alla daga ársins í …
Falleg ljósmynd og jákvæð tilvitnun fyrir alla daga ársins í Presidental Quotes. Bókin er prentuð í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Ingólfur Guðmundsso


„Þá tók verkefnið nýja stefnu og leitin að ummælum varð erfiðari. Ég fór að leita til forsetabókasafna til að fá staðfestingu á ummælunum forsetanna. Litlu söfnin svöruðu oft og vel en síður þau stærri. Önnur bentu á fornminjar sem ég hafði engin tök á að komst í.“

Á þessum tíma sökkti Kolbrún sér niður í forsetaskjöl og sást oftar en ekki læðast inn á kaffihús til að fá frið við lesturinn. „Ég leitaði logandi ljósi að jákvæðum ummælum sem innihéldu ekki stríð, árásir, þrælahald né aðra neikvæðni. Síðan var að velja ljósmynd við hver ummæli og öfugt og dreifa þurfti ummælum jafnt yfir árið, milli forseta og árstíða.“

Flestar tilvitnanir eru óþekktar og fengnar með frumlestri úr forsetagögnum sem Kolbrún heldur til haga. Markmiðið var að geta vísað í alla forseta Bandaríkjanna og tilgreina hvenær orðin voru sögð.

Margar byggingar, minnisvarðar og styttur eru bundnar höfundarrétti.

En tilvitnanirnar voru eitt, ljósmyndaverkin annað og para þurfti hvorutveggja saman. Margar fallegar byggingar eru í Washington D.C., einnig minnissvarðar og styttur á víð og dreif um borgina sem Kolbrún segir gaman að mynda. Mörg söfn eru einnig á svæðinu, sum tileinkuð ákveðnum forsetum. „Það sem margir vita ekki er að höfundarréttur bygginga og minnismerkja er í mörgum tilfellum í eigu þeirra listamanna sem sköpuðu verkin. Þegar að útgáfu kom þurfti ég að rekja slóðina til að finna nöfn listamanna eða afkomenda þeirra og fá leyfi til að nota listaverkið í ljósmyndunum, þrátt fyrir að minnismerkin eða byggingarnar séu opinber og hafi verið keypt fyrir almannafé.“

Kolbrún leggur blaðsíðurnar yfir stofugólfið til skoðunar og ákvörðunar um …
Kolbrún leggur blaðsíðurnar yfir stofugólfið til skoðunar og ákvörðunar um röðun myndar og tilvitnunar eftir dögum.


Það tók því langan tíma að rannsaka bæði lagalegu hlið málsins og eins að finna upplýsingar um viðkomandi listamenn og setja sig í samband. „Í kjölfarið átti ég samskipti við marga þekkta listamenn, eins og skrifstofu Jeff Koons og afkomendur Lawrence Halprin og Neil Estern, sem hvöttu mig áfram og gáfu mér leyfi til að birta myndir af verkum þeirra.“

Kolbrúnu er minnistætt samtal við eignkonu Kenneth Snelson, sem spurði eiginmann sinn sem lá á banabeðinum (Snelson lést 22. desember 2016) hvort hann veitti henni þetta leyfi. Snelson fékk jafnframt upplýsingar um hvaða tilvitnun ætti að standa við ljósmynd af verki hans, Needle Tower í garði við Hirshhorn-listasafnið. „Það var sjálfsagt og lét hann fylgja með að honum væri heiður að ljósmynd af verki hans væri á síðu með ummælum eftir Obama. Aðrir listamenn voru ekki eins viljugir að leyfa íslensku konunni að nota verkið á ljósmynd og vildu fá verulegar greiðslur fyrir.“

En hún dó ekki ráðalaus og þrjóskaðist áfram. Ef ekkert kom svarið var viðkomandi listamanni send vinabeiðni á Facebook, væri hann þar. Þó að listamaðurinn hafi ekki gefið jákvætt svar við vinabeiðninni barst svarið um hæl! Ef leyfi fékkst ekki eða var háð skilyrðum sem Kolbrún vildi ekki samþykkja hófst vinna við að enduraða tilvitnunum og ljósmyndum, eins ef frumheimild fannst ekki.

Sumir Bandaríkjaforsetar hafa haft minna að segja

Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort Kolbrún hefði í gegnum verkið eignast sinn uppáhaldsforseta, m.a. með tilliti til jákvæðra tilvitnana?

„Kannski ekki uppáhalds, en sumir fönguðu vissulega athygli mína. Theodore Roosevelt var mikill útivistar- og náttúruunnandi og ég átti auðvelt með að tengjast ummælum hans, sér í lagi eftir að hafa eytt drjúgum tíma við Potomac-ána að njóta og mynda í algjörri kyrrð og ró: „There are no words that can tell the hidden spirit of the wilderness, that can reveal its mystery, its melancholy and its charm.“ Mér fannst ég ekki heldur geta sleppt einum þekktustu orðum John F. Kennedy sem hann sagði í innsetningarræðu sinni 1961,“ segir Kolbrún að lokum.

Kolbrún hefur opnað vefinn presidentquote.com og sölusíðu á Amazon.com. Einnig er President Quote á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Aldarafmæli Johns F. Kennedy

Í dag, 29. maí, eru eitt hundrað ár frá fæðingardegi Johns Fitzgeralds Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna. Hann var myrtur í Dallas í Texas 22. nóvember 1963.

Fræg eru orð sem hann mælti í innsetningarræðu sinni árið 1961: „Spurðu ekki hvað land þitt geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir land þitt.“ Kolbrún notar þessa tilvitnun á fæðingardegi hans í bókinni.

Allir forsetar eiga tilvitnun á sínum afmælisdegi, einnig nokkrar eiginkonur þeirra.

Eitt hundrað ára fæðingarafmælis Johns F. Kennedy er víða minnst þessa dagana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert