Ómerkilegt pólitískt trix

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst yfirlýsing ráðherra vera ómerkilegur kattarþvottur,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Ummæli Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra í Fréttablaðinu í dag, voru til umræðu.

Þar sagði Þorsteinn að stjórnarandstaðan hefði brugðið fæti fyrir lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og lögfestingu neytendastýrðrar persónuaðstoðar. Ekki er útlit fyrir að tvö frumvörp um þessi efni nái í gegn fyrir þinglok.

Logi telur að ráðherra ætti eftir að hringja í fréttastofur til að óska eftir því að leiðrétta þetta. „Hann er búinn að setja okkur í þá stöðu núna að við þurfum að verja okkur. Þetta er ómerkilegt pólitískt trix.“

Niðurstaðan vonbrigði

Áður hafði Þorsteinn komið upp í pontu og sagt að niðurstaðan um að málefni fatlaðra og félagsþjónusta sveitarfélaga myndu bíða hausts og njóta þar sérstaks forgangs í meðhöndlun þingsins hefðu ollið honum vonbrigðum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri ekki nokkur sál á móti því að ljúka þessum verkefnum. „Á fundi formanna á laugardag voru menn sammála um að þessi mál þyrftu meiri og betri skoðun núna yfir sumartímann, m.a. í ráðuneytinu, áður en hægt væri að afgreiða þau,“ sagði Sigurður.

Þess vegna kom mér gersamlega í opna skjöldu yfirlýsing ráðherrans í Fréttablaðinu í morgun og okkur öllum sem á þeim fundi vorum,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert