Ráðherra leggur til aðra en nefndin

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hefur afhent forseta Alþingis tillögu sína að skipun í embætti fimmtán dómara við Landsrétt. Eru tillögur hennar ekki þær sömu og tillögur dómnefndar um umsækjendur, sem skilaði ráðherra umsögn sinni fyrr í mánuðinum. Leggur ráðherra til skipun átta karla og sjö kvenna en dómnefndin hafði lagt til skipun fimm kvenna og tíu karla.

Þeir fimmtán sem ráðherrann leggur til að skipaðir verði dómarar við Landsrétt eru: 

Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

Segir ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina heldur en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem búa yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur.

Þeir fimmtán sem dómnefndin lagði til voru: Aðal­steinn E. Jónas­son, Ástráður Har­alds­son, Davíð Þór Björg­vins­son, Ei­rík­ur Jóns­son, Hervör Þor­valds­dótt­ir, Ing­veld­ur Ein­ars­dótt­ir, Jó­hann­es Rún­ar Jó­hanns­son, Jó­hann­es Sig­urðsson, Jón Hösk­ulds­son, Krist­björg Stephen­sen, Odd­ný Mjöll Arn­ar­dótt­ir, Ragn­heiður Harðardótt­ir, Sig­urður Tóm­as Magnús­son, Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son og Þor­geir Ingi Njáls­son.

Veiting embætta án fordæma

Í rökstuðningi sem ráðherra sendi forsenda Alþingis í fylgiskjali kemur fram að sú veiting embætta sem liggur fyrir sé án fordæma. Augljóslega sé einstakt að skipa þurfi fimmtán dómara í senn við stofnun nýs dómstóls. „Umsækjendur hafa fjölbreyttan bakgrunn. Að mati dómsmálaráðherra er það jákvætt og gefur tilefni til þess að huga sérstaklega að yfirbragði hins nýja dómstóls með tilliti til þeirrar þekkingar og reynslu sem þar verður.“

Þá segir Sigríður að í umsögn dómnefndar sé reynsla af dómarastörfum lögð að jöfnu við reynslu af lögmannsstörfum og reynslu af störfum í stjórnsýslunni. Ef lögð er saman reynsla af fræðistörfum og kennslu ásamt menntun þá vegur það jafn þungt og þrír fyrrgreindu þættirnir. „Þrír matsþættir, sem sérstaklega er vikið að í reglum nr. 620/2010, eru hins vegar látnir liggja milli hluta með því að gera ekki upp á milli umsækjenda hvað þá þætti varðar. Um er að ræða matsþætti er lúta að stjórn þinghalda, samningu og ritun dóma og almenna starfshæfni. Með því að gera ekki tilraun til þess að leggja tvo fyrrnefndu þættina til grundvallar heildarmati verður ekki annað ráðið en að reynsla dómara fái ekki það vægi sem tilefni er til og gert er ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Þá verður ekki fram hjá því litið, og sem m.a. kom fram í andmælum tveggja umsækjanda, að möguleikum dómara til að afla sér reynslu með aukastörfum eru verulegar skorður reistar með lögum.“

Útilokað annað en að huglægir þættir komi einnig til skoðunar

Í rökstuðningnum segir Sigríður einnig að mat á hæfni umsækjenda um starf sé alltaf vandasamt. „Fyrir utan hlutlæga þætti sem meta þarf er útilokað annað en að huglægir þættir komi einnig til skoðunar. Í tilviki þegar skipa á dómara kunna ólík sjónarmið að eiga við um skipun dómara við Hæstarétt, Landsrétt eða héraðsdóm. Þau sjónarmið kunna líka að vera breytileg frá einum tíma til annars.“

„Eina ófrávíkjanlega krafan sem hlýtur að vera gerð er að til embættisins veljist hæfir einstaklingar og að þeir búi yfir kostum sem renni raunverulegum stoðum undir hið mikilvæga starf sem fram innan réttarins í samstarfi við aðra sem þar starfa. Mat á þessu verður aldrei vélrænt og aldrei þannig að hægt sé að skilja á milli feigs og ófeigs með einkunn upp á til að mynda 0,025 á kvarðanum 1-10. Það er ljóst af gögnum málsins, og að því gefnu að fyrirliggjandi matsþættir verði taldir eðlilegir og einkunnir umsækjenda eðlilegar, að vægi hvers matsþáttar hefur úrslitaáhrif á það hvernig umsækjendur raðast. Ekkert í reglum nr. 620/2010 um störf nefndarinnar kallar á slík vinnubrögð.“

Þá segir Sigríður niðurstöðu sína byggða á gögnum málsins, þ.m.t. umsóknum, umsögn dómnefndar, andmælum umsækjenda og vinnugögnum nefndarinnar, sem ráðherra kallaði sérstaklega eftir. Sú niðurstaða sé að fleiri umsækjendur hafi komið til greina heldur en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem búa yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur.

Embætt­in voru aug­lýst laus til um­sókn­ar 10. fe­brú­ar með um­sókn­ar­fresti til 28. fe­brú­ar. Alls sóttu 37 um embætt­in en þrír drógu um­sókn­ir sín­ar til baka. Dóm­nefnd­ina skipa Gunn­laug­ur Claessen, Guðrún Björk Bjarna­dótt­ir, Hall­dór Hall­dórs­son, Ingi­björg Pálma­dótt­ir og Valtýr Sig­urðsson.

Í viðhengi má sjá fylgiskjalið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert