Tilraun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra til að afla sér heimildar Alþingis með tillögu sinni til skipunar í embætti 15 dómara í Landsrétt er ólögmæt embættisfærsla. Þetta er mat Ástráðar Haraldssonar, hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi formanns landskjörstjórnar.
Greint var frá því í dag að Sigríður hefði afhent forseta Alþingis tillögu sína að skipun í embætti fimmtán dómara við Landsrétt og að tillögur hennar séu ekki þær sömu og tillögur dómnefndar um umsækjendur, sem skilaði ráðherra umsögn sinni fyrr í mánuðinum.
Leggur ráðherra til skipun átta karla og sjö kvenna en dómnefndin hafði lagt til skipun fimm kvenna og tíu karla. Ástráður var í hópi þeirra umsækjenda sem dómnefndin mat hæfasta, en er ekki meðal þeirra sem ráðherra leggur til.
Í bréfi, sem Ástráður ritar forseta Aþingis í dag, segir að þau frávik sem ráðherra geri á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar.
Dæmi um þetta sé þegar að finna í dómi Hæstaréttar í máli Guðmundar Kristjánssonar gegn ríkinu og Árna M. Mathiesen frá árinu 2011, varðandi veitingu embættis héraðsdómara.
Í þeim dómi sé því slegið föstu að dómsmálaráðherra sé bundinn eftir meginreglum stjórnsýsluréttar af því að velja þann umsækjanda sem hæfastur er til að gegna embætti og að ráðherra megi ekki velja aðra. Samkvæmt lögum sé ráðherra óheimilt að skipa mann í dómaraembætti sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda.
Rökstuðningur ráðherra geti ekki verið á almennum nótum, eða tekið til hóps manna sameiginlega líkt og ráðherra hafi nú gert. „Ráðherra verður að rökstyðja sérstaklega fyrir hvern nafngreindan umsækjanda sem dómnefnd hefur talið hæfastan hvers vegna ráðherra leggur til að viðkomandi verði ekki skipaður og gera rökstudda tillögu um annan nafngreindan umsækjanda í staðinn,“ segir í bréfi Ástráðar.
Íslenskir ráðherrar hafi margítrekað brotið reglur við skipan í opinber embætti, þar á meðal dómaraembætti og ríkið þurft að greiða bætur af þeim sökum. „Það hefur væntanlega verið í þessu ljósi sem löggjafinn ákvað að slá þann varnagla að Alþingi yrði að greiða atkvæði og samþykkja tillögu sem fæli í sér að víkja frá faglegu mati sérstakrar hæfisnefndar. Nú reynir á, kröfum um faglegt lögmætt mat á ekki að vera hægt að víkja til hliðar með stimpli,“ segir Ástráður.
Alþingi megi ekki bregðast því hlutverki sínu að tryggja lögmæt málefnaleg vinnubrögð.