Starf félagsráðgjafa aldrei mikilvægara

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starf félagsráðgjafa er mikilvægt í nútímasamfélagi og verður líklega ekki auðveldara með tímanum. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa (IFSW European Conference) sem ber yfirskriftina Jaðarsetning í síbreytilegu samfélagi (Marginalization and Social Work in a Changing) þar sem flóttafólk og aðrir jaðarsettir hópar eru í brennidepli. Ráðstefnan stendur yfir í Hörpu í tvo daga og lýkur á morgun. 

Þetta er fyrsta ráðstefna félagsráðgjafa í Evrópu sem er haldin.

Guðni benti á að við lifum í velferðarsamfélagi og megum vera stolt af mörgu en hins vegar eru vandamál til staðar líkt og í öðrum samfélögum. Í því samhengi vitnaði hann í ljóðið Heimsókn eftir Tómasar Guðmundsson sem segir: „Því meðan til er böl sem bætt þú gast, og barist var á meðan hjá þú sast, er ólán heimsins einnig þér að kenna“ 

Hann ræddi um mikilvægi þess að allir bæru ábyrgð og hver og einn mætti ekki sofna á verðinum. 

Standa vörð um mannréttindi 

Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra, tók í sama streng og Guðni. Hann benti á að þetta væri mjög mikilvægt málefni og starf félagsráðgjafa hefur líklega aldrei verið jafn mikilvægt og um þessar mundir. Hann vísaði til fjölgun flóttamanna sem þyrftu á miklum stuðningi að halda auk þess hafi öfgafullar skoðanir færst í aukana. Þar af leiðandi væri mikilvægt að standa vörð um mannréttindi sem væri eitt af því sem félagsráðgjafar gera.

Eitt af einkunnarorðum ráðstefnunnar er sjálfbærni. Við getum aldrei verið með sjálfbært samfélag ef það er ekki jafnrétti kynjanna meðal annar jöfn laun fyrir sömu vinnu, sagði Þorsteinn og vísaði til mikilvægi jafnra launa milli kynjanna innan fyrirtækja og stofnanna. Fyrir vikið uppskar hann lófaklapp. 

María Rúnarsdóttir, forseti Félagsráðgjafafélags Íslands setti ráðstefnuna. Á eftir henni hélt Ana Isabel Lima, forseti IFSW í Evrópu ræðu. Hún nefndi mikilvægi fræðslu og samvinnu og nefndi árásina í Manchester þar sem ungur maður framdi sjálfsmorðsárás og fjölmargir létust. Starf félagsráðgjafa er margþætt og því er aldrei lokið, sagði hún.  

Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert