Tæpum 360 milljónum króna var varið til landvörslu hérlendis á síðasta ári. Það er umtalsverð hækkun frá árinu 2015 þegar tæpum 270 milljónum var varið til málaflokksins.
Þetta kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Orra Páls Jóhannssonar, þingmanns Vinstri grænna, um landvörslu.
Um er að ræða launakostnað ásamt öðrum liðum, svo sem fæðiskostnað, aksturskostnað, kostnað vegna hlífðarfatnaðar og annan starfstengdan kostnað.
Um 175 milljónir króna runnu til Vatnajökulsþjóðgarðs í fyrra, þar af tæpar 57 milljónir króna til Skaftafells. Til samanburðar runnu árið 2015 tæpar 139 milljónir króna til þjóðgarðsins, þar af tæpar 40 milljónir til Skaftafells.
Alls fóru 110 milljónir króna til þjóðgarðsins á Þingvöllum árið 2016 en árið áður nam fjármagnið 67 milljónum króna.
Tæpar 75 milljónir króna runnu til landvörslu víða um land á vegum Umhverfisstofnunar í fyrra en 2015 runnu um 62 milljónir króna í málaflokkinn.
Í svarinu kemur fram að heilsársstörf við landvörslu hafi verið 30 á síðasta ári, eða 1.560 vikur. Árið 2015 voru störfin 29,5, eða 1.534 vikur.
„Ljóst er að umfang landvörslu verður að þróast í samræmi við síaukið álag af völdum ferðamanna og mun ráðherra halda áfram að beita sér fyrir að tryggja fjármagn til þessa verkefnis, til samræmis við metna þörf. Þar sem dreifing ferðamanna um landið og á einstök svæði er ekki jöfn er erfitt að fullyrða hvort landvarsla hafi haldist í hendur við aukinn fjölda ferðamanna sl. þrjú ár,“ segir í svarinu.
„Stofnanir ráðuneytisins meta þörf á landvörslu með því að bera saman gestafjölda síðasta árs við vænta aukningu næsta árs á hinum ýmsu svæðum. Sérstök áhersla er lögð á ástand náttúru og menningarminja, viðhald verndargildis einstakra svæða, þörf á stýringu, aðgengi, öryggi ferðamanna, upplýsingaveitu og fleiri þætti.“