Jón Finnbjörnsson, sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill sjá í embætti dómara Landsréttar, var í 30. sæti að mati hæfisnefndarinnar. Frá þessu er sagt á vef Kjarnans, sem hefur lista nefndarinnar undir höndum.
Þau Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómas Magnússon og Ragnheiður Harðardóttir eru sögð hafa verið metin hæfust að mati nefndarinnar. Er Davíð Þór sagður hafa verið með einkunnina 7,35, Sigurður Tómas með 6,775 og Ragnheiður með 6,65.
Ástráður Haraldsson, sem sendi þingforseta í gær opið bréf þar sem hann sagði breytingar ráðherra ekki í samræmi við lög, var í 14. sæti á lista nefndarinnar. Eiríkur Jónsson, sem er númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, er heldur ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Sigríður vísaði því á bug, í samtali við mbl.is í dag, að hún hafi brotið lög með því að fara ekki að fullu eftir tillögu dómnefndar um skipun dómara í Landsrétt.
Fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem fjallað var um dómaraskipanina lauk í kvöld án niðurstöðu, en nefndin gerir ráð fyrir að ljúka umfjöllun sinni um málið á morgun.