Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, kemur fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis klukkan 13 í dag vegna tillögu hennar um skipun 15 dómara við Landsrétt.
Að sögn Njáls Trausta Friðbertssonar, formanns nefndarinnar í fjarveru Brynjars Níelssonar, er reiknað með að Sigríður fundi með nefndinni til klukkan tvö.
„Við ætlum að reyna að klára hennar kynningu á málinu,“ segir Njáll Trausti.
Klukkan 14 munu fleiri koma fyrir nefndina, þar á meðal fulltrúar frá dómara- og lögmannafélögunum og Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði frá klukkan 9 til 10 morgun vegna málsins. „Málið var reifað og núna eru nefndarmenn að koma með sínar athugasemdir og ræða málið,“ segir Njáll, sem reiknar með því að málið verði lagt fyrir Alþingi á morgun.