Flugi Icelandair frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum til Keflavíkur með borgarstjóra Fíladelfíu og Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, var snúið af leið og lenti í Boston í Bandaríkjunum vegna bilunar.
Dagur fór og heimsótti Fíladelfíu og átti Jim Kenney, borgarstjóri Fíladelfíu svo að koma með honum til Íslands sem hluti af hefð sem hefur myndast þegar komið er á nýjum alþjóðlegum flugleiðum milli borga. Kenney átti meðal annars að skoða Alþingi Íslands í ferð sinni.
Vélin lagði af stað frá Fíladelfíu klukkan 8:30 að staðartíma í gærkvöldi en var snúið við um 10:45, en þá hafði hún flogið upp með austurströnd Bandaríkjanna og var við það að halda út yfir Atlantshafið. Lenti hún 00:30 í Boston.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is fengu farþegar þá skýringu að smávægileg bilun hefði orðið í loftkerfi flugvélarinnar og því væri ákveðið að lenda. Voru farþegar fluttir á nálægt hótel í borginni.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandiair, sem var hluti af föruneytinu sem fór í þetta fyrsta flug Icelandair til Fíladelfíu, staðfestir við mbl.is að um hafi verið að ræða gúmmílykt sem áhöfn fann. Fór flugstjórinn og skoðaði málið aftur í flugvélinni og var það hans mat að láta athuga það betur og því var ákveðið að lenda í Boston. Segir Guðjón að stefnt sé að því að flogið verði heim í dag með farþega í sömu vél.