Hvað varð um X-kynslóðina?

Kvikmyndin Reality bites frá 1994 þykir fanga lífsstíl X-kynslóðarinnar. F.v. …
Kvikmyndin Reality bites frá 1994 þykir fanga lífsstíl X-kynslóðarinnar. F.v. Ben Stiller, Winona Ryder og Ethan Hawke.

Enginn er ungur að eilífu og X-kynslóðin er nú komin á fimmtugs- og sextugsaldur. Tímaritið Rolling Stone lýsti menningu þessarar kynslóðar á sínum tíma sem ruslakistu; ófrumlegu samsulli af tónlist, list og tísku áranna á undan. Rithöfundurinn Tiffanie Darke kemur kynslóð sinni til varnar í nýútkominni bók sinni, Now We Are 40; Whatever Happened to Generation X?

Fyrir rúmum aldarfjórðungi tefldi kanadíski rithöfundurinn Douglas Coupland X-kynslóðinni fram á sjónarsviðið í fyrstu skáldsögu sinni, Generation X: Tales for an Accelerated Culture. Nafnið vísar til kynslóðarinnar sem náði fullorðinsaldri seint á níunda áratugnum og er bókin talin hafa haft mikil áhrif á þann hóp fólks. Sagan fjallar um metnaðarlaus en kaldrifjuð ungmenni sem sáu lítinn tilgang með lífinu, hlustuðu og dönsuðu við reiftónlist í stórum og hráum húsakynnum, höfðu annað gildismat en eldri kynslóðirnar og neyttu gjarnan alsælu.

En enginn er ungur að eilífu og X-kynslóðin er nú komin á fimmtugs- og sextugsaldur. Eldri borgarar, eða svo gott sem, næsta kynslóð á eftir svokallaðri „baby boomers“-kynslóð eftirstríðsáranna.

Ekki hefur farið mikið fyrir X-kynslóðinni í umræðunni undanfarið, enda var hún kannski óræð og óþekkt stærð sem lítið taldist hafa fram að færa, sinnulaus um umhverfi sitt, heimsmálin og annað slíkt. Nokkrum árum eftir útkomu bókar Couplands lýsti bandaríska tímaritið Rolling Stone menningu X-kynslóðarinnar sem ruslakistu; ófrumlegu samsulli af tónlist, list og tísku áranna á undan.

Mitt á milli

Hvernig svo sem X-kynslóðin er skilgreind er hún um margt ólík fyrrnefndri „baby boomers“-kynslóð, sem ung þótti býsna uppreisnargjörn, og aldamótakynslóðinni sem er með alla þræði í hendi sér þegar tæknin er annars vegar. Og allir vita að tæknin er framtíðin.

Tiffanie Darke kemur X-kynslóðinni, sem stundum er nefnd týnda kynslóðin, svolítið til varnar í nýútkominni bók sinni, Now We Are 40; Whatever Happened to Generation X? Í viðtali í vefútgáfu BBC sagði hún að auglýsingabransinn væri gjörsamlega gagntekinn af „baby boomers“-kynslóðinni annars vegar og aldamótakynslóðinni hins vegar. Sem fjölmiðlamanneskja kvaðst hún þekkja vel til þar á bæ og X-kynslóðin væri tvímælalaust höfð út undan.

Douglas Coupland.
Douglas Coupland.

Darke telur sig af þessari kynslóð og eins og var dæmigert fyrir X-kynslóðina vann hún láglaunastarf á pítsustað á árunum áður og safnaði fyrir ferðalagi um Indland. Hún segir að X-kynslóðinni hafi þótt „glásafpeningum“-menningin hallærisleg og frekar lagst í ferðalög til að víkka sjóndeildarhringinn, tekið skapandi störf fram yfir „uppaleg“, búið til reiftónlist og sumir hafi neytt alsælu eins og fyrr segir. Samkvæmt Darke virðist X-kynslóðin því hafa haft ákveðin viðmið og ekki verið alls varnað.

Sjálf lifði hún og hrærðist í heimi reiftónlistarinnar, m.a. var hún á illræmdu helgarreifi í Worcester-skíri sem lögreglan leysti upp. „Þetta var svöl, uppreisnargjörn menning byggð á frjálslegum hugsunarhætti í anda jafnréttis,“ segir Darke og bendir á að á þessum tíma, fyrir daga stafrænu byltingarinnar, hafi fólk raunverulega þurft að vera á staðnum til að upplifa andrúmsloftið.

Hluti af kerfinu

Í viðtalinu fer Darke um víðan völl, t.d. fullyrðir hún að aldamótakynslóðin sé í hrikalegri tilvistarkreppu og „baby boomers“-kynslóðin, sem alla sína ævi hafi verið í sama örugga starfinu, lifi nú á vænum eftirlaunum og hafi nægan tíma. Hún er þeirrar skoðunar að X-kynslóðin eigi að leggja sitt af mörkum til að tengja aldamótakynslóðina og „baby boomers“, sérstaklega í ljósi þess að X-kynslóðin sé ekki lengur andsnúin hinum ráðandi öflum; kerfinu öðru nafni, heldur sé hluti af þeim. Skilaboð hennar eru að X-kynslóðin eigi að stuðla að umburðarlyndi. „Við verðum að muna eftir því sem var mikilvægt áður en heimurinn varð stafrænn og snjallsímamenningin hóf innreið sína. Sjálf er ég eins sek og næsta manneskja, símarnir eru í senn heillandi og ávanabindandi, en það er nauðsynlegt að líta upp.“

BBC segir úttekt Darke á sögu X-kynslóðarinnar sannfærandi og setta fram af ástríðu.

Heimssýn höfundarins

Douglas Coupland er 55 ára og því með þeim elstu sem teljast geta til kynslóðarinnar sem hann kynnti til sögunnar á sínum tíma. Í nýlegu smásagnasafni sínu, Bit Rot, skrifar hann: „Þótt ég sakni stundum heilans sem ég hafði fyrir daga internetsins vildi ég sannarlega ekki hverfa aftur til þeirra tíma.“ Og þegar BBC spurði hvort hann saknaði raunverulega einskis sagðist hann einfaldlega ekki muna það. „Stundum get ég blekkt heilann með því að lesa bók og þannig talið mér trú um að ég lifi á 20. öldinni, en um leið og ég hætti að lesa er ég kominn aftur í nútímann,“ sagði hann. Rithöfundurinn hljómar óneitanlega svolítið kaldrifjaður að meintum hætti X-kynslóðarinnar, eða a.m.k. eins og hún vildi vera þegar hún var og hét.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka