„Það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og ber á því ábyrgð, bæði pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð. Ráðherra leggur tillögu fyrir þingið. Þingið hefur tvo möguleika í stöðunni, að fallast á tillögu ráðherra eða fallast ekki á tillögu ráðherra.“
Þetta sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í svari við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata, á Alþingi í dag um skipun dómara við Landsrétt. Þingmaðurinn gagnrýndi ráðherrann harðlega og sagði rökstuðning hennar fyrir því að fara ekki að tillögu dómnefndar um skipun dómara við réttinn ekki duga og kallaði eftir ítarlegri rökum.
Vísaði Jón Þór til sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem komið hefðu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem hafi sagt að viki ráðherra frá tillögum nefndarinnar yrðu það að vera á grundvelli rökstuðnings. Rökstuðningur ráðherrans væri hins vegar ekki nógu góður að hans mati.
„Það eru sérstök lög, sérstök ákvæði, sem gilda um skipun dómara í landinu. Með mjög sérstökum hætti er málinu vísað til Alþingis. Um leið er sérstaklega kveðið á um að ráðherra hafi veitingarvaldið og sé heimilt að víkja frá tillögum dómnefndar,“ sagði Sigríður og bætti við að hún legði að sjálfsögðu fram tillögu sína með málefnalegum hætti eftir gagngera skoðun á málinu og gögnum þess með tilliti til andmæla sem komið hefðu fram.
„Það kann að vera að háttvirtur þingmaður sé ekki sáttur við niðurstöðuna. Hann þarf þá að eiga það við sig en ráðherrann ber ábyrgðina.“