„Það eru alveg augljós flokkstengsl og mér finnst það mjög dapurt. Við eigum ekki að hafa dómara út frá því hvaða flokkskírteini þeir hafa,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, Pírati, í umræðu um skipun dómara í Landsrétt.
„Nei, við erum hér með hugarfarið: „Ég á þetta ég má þetta“,“ sagði hún og átti við bæði Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, og Sjálfstæðisflokkinn.
Birgitta ræddi ákvörðun ráðherra um skipun 15 dómara í Landsrétt en hún valdi fjóra dómara sem hæfisnefnd valdi ekki á meðal 15 efstu.
„Við hefðum gjarnan vilja heyra ráðherra útskýra fyrir okkur af hverju maður sem er í 30. sæti er tekinn fram fyrir þann sem er í 7. sæti,“ sagði Birgitta.
Hún gagnrýndi meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og sagði hann hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu. „Hvers konar skrípastaður er þetta? Ég á ekki til orð.“
Birgitta benti á að þegar málið var tekið á dagskrá árið 2010 hafi menn haft áhyggjur af því að ráðherrar myndu missa sjónar á markmiði sínu og láta hagsmuni sína ráða för. Þess vegna hafi verið lögð fram breytingatillaga sem fól í sér að 2/3 hluti þingmanna yrði að fallast á breytingatillögu ráðherra hverju sinni.
„Því miður var þetta kolfellt af þáverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það sýnir sig að það er alveg sama hver fer með völdin. Ef við höfum ekki skýrar reglur sem hefta ægivald ráðherranna erum við í svona stöðu aftur og aftur.“
Birgitta hvatti fólk til að kynna sér einstaklinga sem ráðherra færði upp og niður á lista yfir þá 15 hæfustu í Landsrétt.
Hún talaði um „ömurlega“ málsframkvæmd og sagði að samkvæmt lögum beri þinginu að vera varnagli ef svo bæri undir að ráðherra færi út fyrir valdsvið sitt.
„Mér eru þessi mál mikið hjartans mál. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég gaf kost á mér að fara á Alþingi, til þess að reyna að koma á þrískiptingu á valdastoðum samfélagsins.“