„Það er ekki í augsýn að það myndist breið pólitísk sátt í umræðunni,“ sagði Óttar Proppé, heilbrigðisráðherra, í umræðu á Alþingi um skipun dómara í Landsrétt.
„Erum við sátt við að rökstuðningur ráðherra sé nægjanlegur eða ekki? Því miður er ekki að sjá að við séum að tala okkur niður á það að ná einhverri breiðri pólitískri sátt eða samþykki um þetta lykilatriði.“
Hann tók fram að Björt framtíð eigi ekki sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hefur fjallað um málið, en flokkurinn hafi fylgst með því sem komið hefur fram.
„Hér er verið að stíga eitt stærsta skref í íslensku dómskerfi um áratugaskeið,“ sagði Óttarr og kvaðst vera ánægður með rökstuðning ráðherra í málinu og benti á að sögulega hafi hallað mjög á konur þegar kemur að skipun dómara.
„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það sé í það minnsta horft til kynjasjónarmiða í skipun á nýju dómsstigi,“ sagði hann.
„Það að ráðherra leggi til lista með jafnvægi kynja finnst mér mikilvægt mál. Auðvitað á það ekki að skyggja á annað hæfi dómaranna en mér finnst það mikilvægt skref á 21. öldinni við skipun nýs dómsstigs,“ sagði Óttarr og bætti við að það hafi verið „mjög óþægilegt“ að sjá hve mikið hallaði á konur á lista yfir þá dómara sem hæfisnefndin mælti með.
„Ráðherra hefur rökstutt að hún geri breytingar á listanum frá tillögu matsnefndarinnar. Ég tek undir og samþykki þá röksemdafærslu.“
Óttarr bætti við að að hann teldi það ekki vera hlutverk þingmanna að starfa sem ný matsnefnd sem tæki ákvörðun um hverja skuli skipa sem dómara. Dómsmálaráðherra beri ábyrgð á því.