Ríkisstjórnarflokkarnir fengju samtals 22 þingmenn ef kosið væri í dag, sem er 10 þingmönnum minna en þeir fengu í alþingiskosningunum síðasta haust, en stuðningur við ríkisstjórnina hefur dregist jafnt og þétt saman frá kosningum.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur dregist saman um 3% frá síðustu mælingu en 36% styðja nú ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Rúv greindi fyrst frá.
Gallup kannaði stuðning við flokka í maí. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mestan stuðning, 25,6% en litlu færri styðja Vinstri græn, 24,3%. Því næst koma Píratar en 12,9% styðja þá. Ríflega 11% styðja Framsóknarflokkinn og 9,4% Samfylkinguna. 6,2% styðja Viðreisn, flokk fjármálaráðherra. 4,2% styðja Flokk fólksins en það er mesta fylgi sem sá flokkur hefur fengið í mælingum Gallup og litlu meira en þau 3,5% sem flokkurinn fékk í kosningunum í fyrrahaust. 3,6% lýsa stuðningi við Bjarta framtíð og nærri 3% nefna aðra flokka, þar af styðja um 1% Dögun.
Könnunin var netkönnun gerð dagana 3. til 31. maí. 7.133 voru í úrtaki Gallup, svarhlutfallið var 54,1%. Þar af tóku 79,4% afstöðu til flokka eða ríflega þrjú þúsund svarendur. 10,6% neituðu að svara og 10% sögðust myndu skila auðu. Vikmörk milli flokka eru 0,7-1,5%.