Hæstiréttur ógildir dóm í Stím-máli

Frá aðalmeðferð í héraðsdómi árið 2015.
Frá aðalmeðferð í héraðsdómi árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms í Stím-málinu svokallaða en rétturinn vísar til þess að Sigríði Hjaltested, dómara í málinu, hafi brostið hæfi til að dæma í málinu. Sigríður sagði sig frá öðru hrunmáli sem Hæstiréttur segir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrrverandi eiginmann sinn og barnsföður.

„Með því að tengsl og aðstæður í því máli sem hér var til umfjöllunar voru í öllu verulegu sambærilegar þeim sem voru í hinu málinu var talið að dómarinn [sic] hefði borið að víkja sæti, enda hefði mátt líta svo á að umrædd atriði gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið hlutdrægur í garð Á við meðferð málsins í héraði,“ segir í dómnum.

Þegar dæmt var í málinu í lok árs 2015 var fyrrverandi eiginmaður Sigríðar með stöðu sakbornings í þremur málum hjá sérstökum saksóknara. Í Stím-málinu var Lár­us Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóri Glitn­is, dæmd­ur í fimm ára fang­elsi fyr­ir umboðssvik. Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta Glitn­is, var dæmd­ur í 2 ára fang­elsi, einnig fyr­ir umboðssvik. Þor­vald­ur Lúðvík Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Saga Capital, var dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi fyr­ir hlut­deild að umboðssvik­um.

Í dómi Hæstaréttar núna kemur fram að Sigríður hafi á þeim tíma sem hún dæmdi í Stím-málinu vitað um stöðu fyrrverandi eiginmanns síns. Stuttu áður en dómur féll í Stím-málinu var önnur ákæra gefin út gegn stjórnendum Glitnis í svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli bankans. Sagði Sigríður sig frá því þar sem hana skorti hæfi til að dæma í málinu og vísaði hún til þess að eiginmaður sinn hafi verið starfsmaður bankans og með stöðu sakbornings í öðrum málum. 

Vakti þetta athygli verjanda í Stím-málinu sem komu tengslunum á framfæri við ríkissaksóknara sem sagðist ekki telja þetta ástæðu til að fara fram á ógildingu. Gerðu verjendur það því fyrir Hæstarétti þegar málið var tekið þar fyrir.

Með ógildingu dómsins er málinu vísað á ný í hérað þar sem það skal tekið fyrir á ný. Er þetta þriðja hrunmálið sem Hæstiréttur ógildir og vísar á ný í hérað, en áður hafði hann ógilt dóm í Aurum-málinu og Marple-málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert