Stefnt er á að greiða atkvæði um tillögur Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara í Landsrétt á Alþingi um klukkan fimm í dag. Þingmenn hafa tekist á um tillögur ráðherra á þingfundi í dag, en hann hófst klukkan 11 og stefnt er á að honum ljúki klukkan fimm.
Tillögur ráðherra eru ekki þær sömu og sérstakar dómnefndar, sem mat hæfi umsækjenda um sæti í Landsrétti. Ráðherra leggur til fjóra einstaklinga sem nefndin tilnefndi ekki, en alls verða 15 dómarar skipaðir við réttinn.
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill samþykkja tillögu ráðherra en minnihlutinn, skipaður fulltrúum stjórnarandstöðunnar, vill vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar, enda hafi Sigríður ekki rökstutt tillögur sínar ekki nægilega vel, að þeirra mati.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að fyrst verið kosið um tillögu minnihlutans um að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. „Ég vænti þess að hún verði felld og þá verða væntanlega greidd atkvæði um tillögu ráðherrans. Þar sem við teljum tillögu ráðherra vanbúna þá reikna ég með að við munum sitja hjá. Við eigum þó eftir að fara yfir það nákvæmlega.“
Sigurður segir það skynsamleg rök hjá ráðherra að horfa meira til dómarareynslu umsækjenda, en dómnefndin gerði í sínu mati. „Við fáum hins vegar ekki séð á þeim gögnum sem við höfum fengið hjá ráðherranum að hún hafi fullnægt rannsóknarskyldu og rökstuðningi um að þeir 15 sem hún tilnefnir úr þeim hópi 24 sem hún segir að séu hæfastir, sem ég rengi ekki, en þar finnst okkur skorta á. Ef við hefðum fengið tíma þá hefði hún geta lagt fram skýrari rökstuðning sem hefði hugsanlega sannfært okkur um að þetta væri rétti mat hjá henni.“
Sigurður hefur haft sínar efasemdir um að niðurstöðu dómnefndarinnar. „Matsnefndin segir 15 hæfasta. Miðað við þá gögn sem við sáum, hvernig hún hefði komist að því, finnst mér ekki augljóst. Sigurður hefur því mikinn skilning á sjónarmiði ráðherrans. Að hans mati snýst þetta mál ekki um pólitík, og hann segist ekki sjá augljós flokkstengsl þeirra sem ráðherra hefur tilnefnt, líkt og Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, sagði í ræðu sinni á þingi í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir málið ekki snúast um þá einstaklinga sem ráðherra hefur lagt til. „Þetta snýst ekki um hverjir verða endanlega í þessum hópi. Við viljum bara fá sannfæringu á því að málatilbúnaður sé hafinn yfir vafa.“ Aðspurð Katrín segist ekki geta dregið neinar ályktanir um að flokkstengsl hafi ráðið tillögum dómsmálaráðherra.