Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er langt frá því að vera sannfærður um að dómsmálaráðherra hafi uppfyllt þær kröfur sem gera verður til hennar vegna skipunar dómara í Landsrétt. Hann vill fresta málinu um 15 til 20 daga.
Logi hefur setið sem áheyrnarfulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðustu daga, fylgst með umræðunni og tekið þátt í henni.
„Ég er langt í frá sannfærður um að dómsmálaráðherra hafi uppfyllt þær kröfur sem gera verður til hennar ef hún víkur frá mati hæfnisnefndar. Þess vegna hefði ég talið best ef við hefðum frestað málinu um 15 til 20 daga til að henni gefist ráðrúm til að vanda vinnu sína betur og undirbyggja sinn málflutning. Það er auðvitað synd og rýrir trúverðugleika nýs dómsstóls ef það á að reyna að keyra málið í gegn með þessum hætti, en við skulum sjá til hvort það takist,“ segir Logi.
Spurður hver afstaða hans hafi verið til tillögu hæfisnefndar um 10 karla og 5 konur í Landsrétti segir hann að æskilegt hefði verið að nýr dómstóll endurspeglaði sem breiðast litróf kynja. Aftur á móti hafi ekki komið til þess að taka þyrfti afstöðu til þeirrar tillögu.
„Það kom í sjálfu sér á óvart að þau skyldu bara tilnefna 15 en það er óáhugavert í augnablikinu.“
Hann segist ekki vera að halda því fram að ráðherra hafi ekki heimild til að víkja frá mati dómnefndar, því það hafi hún ótvírætt. „Það kom ekkert á óvart að hún gerði tillögur að því en það þarf að gera þær kröfur að hún geri það samkvæmt því sem farið er fram á.“