Óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur

VR hvetur félagsmenn sína, sem breytingin tekur til, til að …
VR hvetur félagsmenn sína, sem breytingin tekur til, til að hafa samband við Vinnumálastofnun og leita réttar síns. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur segir að stytting á tímabili atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 sem var gerð var með lögum nr. 125/2014 hafi verið óheimil að því marki sem hún skerti bótarétt félagsmanna í VR, sem þáðu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar.

VR og félagsmaður í stéttarfélaginu höfðuðu í janúar 2015 mál á hendur Atvinnuleysistryggingasjóði, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga, Vinnumálastofnun og íslenska ríkinu.

Var krafist viðurkenningar á því að stytting á tímabili atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30, sem gerð var með lögum nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, hefði verið óheimil að því marki sem hún skerti bótarétt þeirra sem þáðu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Málum á hendur ríkinu, Vinnumálastofnun og Tryggingasjóði vísað frá

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að með hliðsjón af stöðu og verkefnum Vinnumálastofnunar við afgreiðslu atvinnuleysisbóta var kröfum félagsmannsins og VR á hendur honum vísað frá héraðsdómi.

Þá var talið að VR hefði ekki gert grein fyrir því hvort innan vébanda hans væru einhverjir sem teldust sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði. Væru einhverjir slíkir í félaginu hefði VR ekki gert grein fyrir því hvort einhver þeirra hefði á þeim tíma, sem máli skipti, átt virk réttindi til atvinnuleysisbóta úr hendi Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklingaVar málinu gagnvart sjóðnum því vísað frá héraðsdómi.

Loks var talið að aðild íslenska ríkisins að málinu væri vanreifað og var málinu því einnig vísað frá héraðsdómi að því er hann varðaði.

Krafa sem nýtur verndar stjórnarskrárinnar

Í dómi Hæstaréttar kom fram að atvinnuleysisbætur væri greiðsla af félagslegum toga, fjárhagsaðstoð, sem í aðalatriðum væri þannig til komin að launamaður hefði áunnið sér rétt til bótanna með því að sinna í þágu launagreiðanda starfi sem tryggingagjald væri greitt af. Krafa um slíkar bætur væri peningakrafa sem fæli í sér fjárhagsleg verðmæti.

Í ljósi þessa eðlis kröfunnar var talið að krafan nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. viðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og teldist því eignarréttindi í skilningi þessara fyrirmæla.

Á hinn bóginn gæti löggjafinn samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar sett þessum réttindum takmörk án þess að bætur þyrftu að koma fyrir. Yrði slík skerðing að vera almenn í þeim skilningi að hún tæki til allra eignarréttinda af tilteknum toga og af ástæðum sem taldar yrðu almennar. Þá þyrfti að vera eðlilegt samræmi milli þess markmiðs með skerðingunni sem löggjafinn hefði stefnt að og þeirra leiða sem notaðar væru til þess að ná markmiðinu.

Gætti ekki meðalhófs

Talið var að þótt markmið löggjafans með lögum nr. 125/2014 hefði verið málefnalegt hefði hann átt þess allan kost að gæta meðalhófs og taka sanngjarnt tillit til þeirra sem hefðu átt virkan rétt til atvinnuleysisbóta eða höfðu virkjað þann rétt fyrir gildistöku laganna þótt þeir hefðu ekki þegið bætur í árslok 2014.

Að þessu gættu og með hliðsjón af aðstæðum félagsmannsins var talið að ekki hefði verið gætt meðalhófs gagnvart honum við lagasetninguna. Það sama ætti við um tilgreindan hóp félagsmanna innan VR sem þegar hefði notið bóta og missti þann rétt strax eða fljótlega í kjölfar gildistöku laganna. Löggjafinn hefði haft færi á því að gæta slíks meðalhófs og milda áhrif skerðingarinnar með áþekkum hætti og gert var við gildistöku laga nr. 54/2006 þegar tímabil atvinnuleysisbóta var stytt úr fimm árum í þrjú.

Yrði Atvinnuleysistryggingasjóður að bera hallann af því að þess hefði ekki verið gætt við setningu laga nr. 125/2014.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti gagnvart áfrýjendunum íslenska ríkinu, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga og Vinnumálastofnun var felldur niður.

Atvinnuleysistryggingasjóður var dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.500.000 krónur til hvors um sig.

Félagsmenn hvattir til að leita réttar síns

VR hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar segir að Hæstiréttur taki undir þá kröfu félagsins að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða stjórnarskrárvarinn rétt hundruða félagsmanna VR til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, eða úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Ríkið hafi talið sig geta sparað 1.130 milljónir króna með þessum breytingum. 

„Í ljósi þessarar niðurstöðu gerir VR þá kröfu að Vinnumálastofnun flýti endurreikningi á atvinnuleysisbótum allra félagsmanna VR sem og annarra einstaklinga sem breytingin náði til á þeim tíma, þ.e. þeirra sem fengu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sóttu um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt lögum.

VR hvetur félagsmenn sína, sem breytingin tekur til, til að hafa samband við Vinnumálastofnun og leita réttar síns. VR mun fylgja því eftir að bætur og dráttarvextir verði rétt reiknaðir,“ segir í tilkynningu VR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert