Berit Reiss-Andersen, formaður nefndarinnar sem veitir friðarverðlaun Nóbels, segir verðlaunin pólitísk í eðli sínu. Með verðlaununum vilji nefndin styðja einstaklinga, eða samtök, sem hafi lagt mest af mörkum til friðar.
Hún segir verðlaunin því á vissan hátt vera hvatningarverðlaun. Það geti falið í sér vissa áhættu. Verki einstaklinganna sé ekki alltaf lokið. Til dæmis hafi Nelson Mandela ekki verið orðinn forseti þegar hann fékk verðlaunin árið 1993.
Til marks um jákvæð áhrif verðlaunanna nefnir hún í Morgunblaðinu í dag að valið á síðasta verðlaunahafa, Juan Manuel Santos, hafi haft jákvæð áhrif á friðarviðræður í Kólumbíu.
Valið á Barack Obama árið 2009 var umdeilt og sagði hann sjálfur að aðrir ættu þau meira skilið.
Nokkrum árum síðar skrifaði Geir Lundestad, fyrrverandi stjórnandi norsku Nóbelsstofnunarinnar, að stofnunin hefði talið að verðlaunin myndu styrkja stöðu forsetans.
Reiss-Andersen segir hluta rökstuðningsins fyrir valinu hafa valdið sér heilabrotum. Hins vegar sé hlutur Obama í afvopnunarmálum vanmetinn. Eftirmaður hans, Donald Trump, ræði um að efla kjarnorkuvarnir Bandaríkjanna.
Reiss-Andersen segir nefndarmenn taka mið af átökum og straumum hvers tíma þegar þeir velja hverjir fá verðlaunin.
Hún segir nefndarmenn hittast nokkrum sinnum yfir árið og á þeim fundum smátt og smátt útiloka þá 230-300 sem tilnefndir eru þar til ákvörðun er tekin um haustið. Hún segir nefndarmenn ráðfæra sig við sérfræðinga áður en niðurstaða er fengin. 4