Ofurkonur á leið yfir Vatnajökul

Undrakonurnar frá vinstri: Elísabet Atladóttir, Selma Benediktsdóttir, Elín Lóa Baldursdóttir, …
Undrakonurnar frá vinstri: Elísabet Atladóttir, Selma Benediktsdóttir, Elín Lóa Baldursdóttir, Íris Ragnarsdóttir Pedersen, Tina María Halldórsdóttir og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir. Á myndinda vantar Októvíu Eddu Gunnarsdóttur. Ljósmynd/aðsend

Sjö íslenskar konur lögðu í morgun af stað í ferð yfir Vatnajökul. Þetta er í fyrsta sinn sem hópur kvenna fer í slíka ferð en allar eru þær þrautþjálfaðir leiðsögumenn hjá fyrirtækinu Íslenskir Fjallaleiðsögumenn (ÍFLM). Hafa þær allar unnið sem leiðsögumenn á jökli síðustu ár.

Hugmyndin að ferðinni vaknaði fyrst fyrir um ári síðan en varð aldrei neitt úr henni þá. Síðastliðinn febrúar fóru tvær úr hópnum, Elísabet Atladóttir og Elín Lóa Baldursdóttir, á svokallað „Polar Training“ námskeið hjá ÍFLM og vöknuðu þá umræðurnar um að fara í ferð yfir Vatnajökul aftur. „Nokkrir sem við þekkjum úr vinnunni eða í gegnum útivistina hafa verið í svipuðum gönguskíðaferðum bæði á Vatnajökli og annarsstaðar á landinu og er þetta alveg klassísk ferð ef fólk er að stunda jökla- og skíðamennsku“ segir Elísabet. Hópurinn hefur kallað sig „Wonderwomen“ eða ofurkonur, líkt og samnefnd kvikmynd er nú mikið í umræðunni. 

Hvannadalshjúkur á Vatnajökli.
Hvannadalshjúkur á Vatnajökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í góðra vina hópi yfir jökulinn 

Ferðin vekur athygli á því að þetta er mögulega í fyrsta sinn sem hópur kvenna fer yfir Vatnajökul. Þær segjast þó ekki mikið hafa verið að velta því fyrir sér þegar þær ákváður að takst ferðina á hendur.

Gríðarlegur áhugi á útivist og náttúru, auk áskorunarinnar sem felst í því að taka sér svona stórt verkefni fyrir hendur, hafi þar ráðið mestu. Kunnugt er að Unnur Jónsdóttir hefur áður lagt í slíka ferð ein síns liðs, en ekki er vitað af því að jafn stór hópur kvenna hafi lagt í ferðina áður. Konurnar eru allar á aldrinum 22-23 ára, sem telst tiltölulega ungur aldur fyrir ferð af þessu tagi. Er þetta einnig í fyrsta skipti sem hópurinn leggur í svona langa ferð allar saman, en þær þekkjast allar í gegnum vinnu sína hjá ÍFLM og eru góðar vinkonur.

Hópurinn hittist á Selfossi snemma í morgun og er þaðan ferðinni heitið í Jökulheima, en það gæti tekið fimm til sjö klukkustundir eftir færð og veðri. Þegar þangað er komið þarf hópurinn að fá far yfir stóra á sem liggur undan jöklinum og eins langt að jöklinum og hægt er.

„Við gætum þurft að ganga fyrsta spölinn og þá annaðhvort bera allan farangurinn á bakinu eða draga sleðana á jörðinni. Svo byrjum við að skíða eins fljótt og við getum“ greinir Elísabet frá. Allar eru þær að draga púlkur, þ.e. eins konar sleðar, með farangri en eins og geta má þarf mikinn búnað í svona langa ferð. Eitthvað af þeim búnaði sem þær munu draga þvert yfir jökulinn eru tjöld, svefnpokar, dýnur, eldsneyti, matur og eldunargræjur auk sérbúnaðar eins og línur, skóflur, ísaxir, sprungubjörgunarbúnað, fjarskiptatæki og sólarrafmagnssellur.

Hér má sjá leiðina sem hópurinn tekur yfir Vatnajökul.
Hér má sjá leiðina sem hópurinn tekur yfir Vatnajökul. mbl

Fyrstu þrjá dagana og tvær næturnar stefnir hópurinn í átt að Grímsvötnum og þá þriðju gista þær við skálann á Grímsfjalli. Eftir Grímsvötn er stefnan svo tekin í austurátt að Skálafellsjökli þar sem ferðin tekur enda. Gera þær ráð fyrir því að skíða í þrjá daga og gista tvær nætur á leiðinni þangað.

Áætla ofurkonurnar að ferðin muni taka sex daga ef allt gengur eftir plani, en þær eru með vistir fyrir sjö til átta daga í heildina og hafa því svigrúm til þess að aðlaga ferðina ef þörf er á. „Það er í rauninni hægt að stoppa og gista hvar sem er á jöklinum sem gerir ferðina þægilega að því leiti að við erum ekki bundnar við ákveðna leið eða ákveðna gististaði. Við tökum bara einn dag í einu og högum segli eftir vindum“ segir Elísabet.

Hópurinn í morgun áður en lagt var af stað. Frá …
Hópurinn í morgun áður en lagt var af stað. Frá vinstri: Tina María Halldórsdóttir, Elín Lóa Baldursdóttir, Selma Benediktsdóttir, Elísabet Atladóttir, Októvía Edda Gunnarsdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Íris Ragnarsdóttir Pedersen Ljósmynd/aðsend

„Einar í heiminum á endalausri ísbreiðu“

Í svona ferð eru margar áskoranir en að þeirra mati verður spennandi að sjá hvernig aðgengið að jöklinum er fyrsta daginn og hversu vel gengur að koma sér af stað. Fyrstu tveir dagarnir gætu reynst erfiðir þar sem gengið er upp fjallið. Einnig spilar veðrið mikið inn í en spáð er miklum vindi fram yfir helgi. Síðari hluta ferðarinnar liggur áskorunin í því hvernig stemningin innan hópsins verður og hvort skipulagið gangi upp, bæði með mat og búnað. Hingað til hefur hins vegar reynst erfiðast að pakka. Passa að allt sé til staðar og að engu sé gleymt, til dæmis heyrnatólum svo þær geti nú hlustað á tónlist uppi á jöklinum.

„En annars þá hlökkum við mikið til og bíðum í raun bara spenntar eftir því að vera að skíða á Vatnajökli í góðra vina hópi, einar í heiminum á endalausri ísbreiðu. Svo verður skálað með öli yfir kjötsúpu í Svínafelli, heima hjá Svanhvíti og Írisi eftir ferðina“ segir Elísabet að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert