Ríkislóðum verði komið í byggð

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við undirritunina.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við undirritunina. mbl.is/Hanna

Aðgerðahópur ríkisstjórnarinnar kynnti í dag svokallaðan húsnæðissáttmála sem unninn hefur verið af aðgerðahópi fjögurra ráðherra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að undanförnum. Sáttmálinn felur í sér 14 sérstakar og almennar aðgerðir til að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði. Meðal þeirra aðgerða sem kynntar voru í dag er að ríkislóðum á höfuðborgarsvæðinu verði komið í byggð þar sem byggðar verði um 2000 íbúðir.

Það voru þau Þorsteinn Víglundsson, ráðherra félags-, jafnréttis- og húsnæðismálaráðherra og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindamálaráðherra, sem kynntu sáttmálann á blaðamannafundi sem fram fór húsakynnum Íbúðalánasjóðs í Borgartúni klukkan tvö í dag. Þá skrifuðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undir samkomulag ríkis og borgar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík.

Markmið aðgerðanna er að koma í veg fyrir að ástandið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði endurtaki sig ekki, leita leiða til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og fjölga leiðum til fjármögnunar á eigin húsnæði.

Fjölmenni var samankomið til að fylgjast með.
Fjölmenni var samankomið til að fylgjast með. mbl.is/Hanna

Skattalegir hvatar og einfaldað byggingaregluverk

Aðgerðirnar fjórtán fela m.a. í sér greiningu og áætlanagerð og samræmingu húsnæðisáætlana sveitarfélaga og breytingu laga, reglna og ferla. Stefnt er m.a. að því að settir verðir á hvatar til langtímaleigu og almennrar notkunar íbúðarhúsnæðis, m.a. innheimtu tómthúsagjalds og með skattalegum hvötum, aukinn verði sveigjanleiki í útleigu á hluta íbúðarhúsnæðis, regluverk byggingarmála verði einfaldað, fræðsla til leigjenda og leigusala verði aukin og gjaldtaka innviða verði tekin til skoðunar og metin.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í húsnæðissáttmálanum að ríkislóðum á höfuðborgarsvæðinu verði komið í byggð þar sem alls verði gert ráð fyrir um 2000 íbúðum á þeim reitum er um ræðir þar sem áhersla verði lögð á litlar og hagkvæmar íbúðir.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra …
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Hanna

Kynnti aðgerðahópurinn jafnframt aðgerðir til að mæta fjármögnun einstaklinga, m.a. við fyrstu skref á húsnæðismarkaði og úrræði fyrir lægri tekjuhópa. Í því samhengi stendur til að boðið verði upp á svokölluð startlán að norskri fyrirmynd, þ.e. viðbótarlán til útborgunar í íbúð og félagslegt kaupleigukerfi.

Þá nefnir hópurinn meðal aðgerða að flýta skuli fyrir og fjölga sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk og að tryggð verði fjármögnun aukins fjölda námsmannaíbúða og uppbyggingu þeirra flýtt en ráðgert er að byggðar verði alls 896 íbúðir með lánsfjármagni frá Íbúðalánasjóði.

Loks verði aukið fjármagn lagt í almenna íbúðakerfið með því að auka fjármagn í kerfinu um 1,5 milljarða króna fram til ársins 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka