Dómsmálaráðherra hefði átt að beina því til hæfisnefndar að taka málið til skoðunar aftur frekar en að taka á málinu með þeim hætti sem hún gerði. Þetta segir Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður í þættinum Vikulokin á Rás 1 nú í morgun.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Ástráður hafi ákveðið að stefna ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra að skipa hann ekki dómara við Landsrétt. Hann telur að ráðherra hafi meðal annars brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins og jafnréttislögum við skipan dómara.
Sagði Ástráður að telji ráðherra hæfisnefndina hafa gert mistök eða hafa misbeitt valdi sínu, þá þurfi hann að leggja í rannsókn sem sé að minnsta kosti jafn ítarleg og sú sem nefndin lagði í við að ná sinni niðurstöðu.
Hann sagði jafnframt rangt hjá þinginu að ráðherra geti gengið framhjá þeim sem metnir eru hæfastir í starfið. „Hún tryggir ekki að ráðherra sé laus við grundvallarreglu stjórnskipunar að velja hæfustu umsækjendurna.“
Spurður hvort hann telji pólitík hafa ráðið einhverju um val ráðherra kveðst hann ekki vita hvort svo sé. „Ég veit ekkert hvað bjó í huga ráðherra. Ég kann ekki skýringar,“ sagði Ástráður. „Það eina sem ég veit er að þær skýringar sem ráðherra hefur sett fram eru ekki réttu skýringarnar, því þær eru í innbyrðist ósamræmi og passa ekki við þá niðurstöðu sem hún komst að.
Við sérhverja vísbendingu um ómálefnalegan tilgang, þá eigi sönnunarbyrðin að velta yfir á ráðherra.
Spurður út í kynjahlutföllin kvaðst Ástráður þeirra skoðunar að öllum finnist æskilegt að það séu sem jöfnust hlutföll kynja í dóminum. „Ég hef velt því fyrir mér hvort það hefði verið hægt að setja slíkar reglur í upphafi,“ segir hann. „En held að það hefði brotið gegn reglunni um að hæfasti umsækjandi fái stöðuna.“ Benti hann á að jafnréttislögin eigi við þegar valið standi á milli tveggja jafnhæfra einstaklinga. „Sú staða kom ekki upp í þessu máli.“
Þó hann geti ekkert fullyrt um það hvernig málið muni fara, þá sé hann nokkuð sigurviss. „Það er margt sem getur haft áhrif á niðurstöðuna, en ég er sérfróður um valdníðsluhugtakið og því veit ég vel að atvik þessa máls og hvernig það stendur það bendir skýrlega til að ég muni vinna málið og þess vegna er ég alveg rólegur yfir því,“ sagði Ástráður.
Sjálfur hafi hann oft farið með mál fólks sem hafi lent í þessari stöðu. „Stundum höfum við unnið slík mál, en fólki reiðir ekkert endilega vel af eftir á. Það er ekki endilega gaman að lenda í slag við valdið. Frá mínum bæjardyrum séð þá fyndist mér ég hins vegar vera að svíkja sjálfan mig ef ég gerði þetta ekki.“