Kanadísk herþota á Reykjavíkurflugvelli

Kanadíska herþotan er komin á Reykjavíkurflugvöll.
Kanadíska herþotan er komin á Reykjavíkurflugvöll. Ljósmynd/Flugmálafélag Íslands

Flugsýning Flugmálafélags Íslands hefst nú á hádegi. Á sýningunni, sem haldin er á Reykjavíkurflugvelli, verður m.a. að sjá F18-þotu kanadíska hersins.

Þegar er nokkur mannfjöldi mættur á svæðið og yfir 40 flugvélar eru tilbúnar fyrir dagskrá dagsins að því er segir í tilkynningu frá Flugmálafélaginu og segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, aðstæður vera með besta móti.

„Það er frábært veður og létt gola. Gæti ekki verið betra fyrir flugsýningu í Reykjavík. Það er mikil spenna í flugmönnum og ég heyri á þeim sem eru þegar mættir að það er mikil spenna í gestum enda ekki á hverjum degi sem hægt er að komast í návígi við F18-herþotu,“ er haft eftir Matthíasi í tilkynningunni.

Auk þotunnar taka þátt í sýningunni 40 aðrar vélar af öllum stærðum og gerðum, allt frá drónum, fisflugvélum, svifflugum, listflugvélum, farþegaþotum auk annarra loftfarara.

Sýningin stendur til þrjú í dag og eru allir velkomnir og ókeypis inn á svæðið.

Lögregla mun annast stjórnun umferðar og eru sýningargestir hvattir til þess að leggja við Háskólan í Reykjavík og ganga svo yfir á sýningarsvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert