Segir að niðurstaða nefndarinnar hefði ekki verið samþykkt

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Ljóst var, eftir að niðurstaða hæfnisnefndar um skipan dómara við Landsrétt lá fyrir, að hún myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi.

Þetta segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar segir hún að rökstuðningur hennar hefði þar engu breytt, sjálfri hefði henni fundist niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg.

„Þessi reynsla gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort þingið sé í stakk búið til þess að axla þessa ábyrð, hvort það sé yfirleitt sanngjarnt að ætlast til þess af því með tilliti til hlutverks þess,“ segir Sigríður og segist geta fullyrt nú, í ljósi reynslu sinnar, að endurskoða þurfi reglur og fyrirkomulag við veitingu dómaraembætta.

Grein Sigríðar í Sunnudagsmogganum fylgir hér á eftir:

„Alþingi lauk störfum á fimmtudag með atkvæðagreiðslu um tillögu þeirrar sem þetta skrifar um skipan í embætti dómara við Landsrétt. Atkvæðagreiðslan var söguleg. Aldrei áður hefur Alþingi komið að skipun dómara og aldrei hafa verið skipaðir jafnmargir dómarar í einu.

Fyrirkomulag við skipan dómara hefur verið með ýmsum hætti fram til þessa og mismunandi eftir því hvort við á Hæstarétt eða héraðsdómstól. Dómsmálaráðherra skipaði áður fyrr hæstaréttardómara eftir umsögn Hæstaréttar en 3 manna dómnefnd fjallaði um umsækjendur héraðsdóma áður en ráðherra tók ákvörðun um skipun. Árið 2010 var sett á laggirnar 5 manna dómnefnd sem hefur síðan fjallað um umsækjendur um bæði stöður héraðsdómara og hæstaréttardómara. Um leið var vægi nefndarinnar aukið þannig að ráðherra hefur verið bundinn við niðurstöðu hennar. Þó er það ekki fortakslaust því sérstaklega er kveðið á um að ráðherra geti vikið frá mati nefndarinnar en þá verður hann bera það undir Alþingi. Í greinargerð með frumvarpi með þessari breytingu er sérstaklega áréttað að veitingarvaldið sé hjá ráðherra. Það sé enda eðlilegt að valdið liggi hjá stjórnvaldi sem ber ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu. Með lögum um Landsrétt var svo kveðið á um að við skipun dómara í fyrsta sinn yrði ráðherra að bera tillögu sína upp við Alþingi, hvort sem ráðherra gerði tillögu um að skipa dómara alfarið í samræmi við niðurstöðu dómnefndar eða ekki.

Nú hefur þingið í fyrsta sinn fengið tækifæri til þess að axla þá ábyrgð sem það kallaði eftir árið 2010. Ráðherra varð það strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi. Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt. Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg. Að virtum öllum sjónarmiðum sem máli skipta gerði ráðherra tillögu til Alþingis um tiltekna 15 einstaklinga úr hópi þeirra 24 sem hann hafði metið hæfasta. Virtist mikil og góð sátt um tillögu ráðherra í upphafi. Það breyttist hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði. Það kann að vera að vonbrigði þeirra sem höfðu verið á lista dómnefndar en ráðherra gerði ekki tillögu um, og þeim tengdra, hafi haft þar áhrif. Þá verður ekki fram hjá því litið að umræða í fjölmiðlum getur ært óstöðugan. Þessi reynsla gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort þingið sé í stakk búið til þess að axla þessa ábyrgð, hvort það sé yfirleitt sanngjarnt að ætlast til þess af því með tilliti til hlutverks þess. Dómsmálaráðherra getur í öllu falli fullyrt, nú í ljósi reynslu sinnar, að endurskoða þarf reglur og fyrirkomulag við veitingu dómaraembætta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka