Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að svo virðist sem einhvers misskilnings gæti vegna lista yfir einkunnagjöf dómnefndar um hæfnimat umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt. Líkt og fram hefur komið tilnefndi ráðherra fjóra einstaklinga sem ekki voru á þeim fimmtán manna lista sem sérstök dómnefnd lagði til að yrðu skipaðir dómarar við hinn nýja áfrýjunardómstól. Tillögur ráðherra voru samþykktar á Alþingi með 31 atkvæði gegn 22.
Sigríður kveðst ekki óttast að framvinda málsins muni bitna á trausti til dómstólsins en formaður dómnefndarinnar kýs að tjá sig ekki um málið í fjölmiðlum.
„Þetta er einhver meinloka hjá fólki að ræða þennan lista, enda er þessi listi ekki hluti af umsögn dómnefndarinnar heldur þvert á móti tekur dómnefndin fram í umsögn sinni að hún gerir ekki upp á milli þessara 15 sem hún leggur til,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.
Hún segir liggja alveg ljóst fyrir að þeir fjórir einstaklingar sem hún gerði tillögu um og ekki voru inni á lista dómnefndar séu „einstaklingar með áratuga farsælan feril við dómstólana.“ Segir ráðherra að miklu frekar sé litið til þess heldur en einhvers lista og ítrekar að dómnefndin geri ekki upp á milli þeirra 15 umsækjenda sem nefndin lagði til. Það komi skýrt fram í umsögn dómnefndar.
„Það gilda bara um þetta reglur, þessar reglur númer 620/2010, þar sem kveðið er á um að það þurfi að líta til ákveðinna þátta,“ segir Sigríður um mat á hæfni umsækjenda. „Þar er ekkert kveðið á um hvað hver þáttur eigi að vega mikið heldur er einmitt kveðið á um það að leggja skuli heildstætt mat á þetta allt saman.“
Jón Finnbjörnsson er einn þeirra fjögurra einstaklinga sem ekki voru meðal þeirra umsækjenda sem dómnefndin lagði til, en voru aftur á móti í hópi þeirra fimmtán umsækjenda sem ráðherra lagði til að yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt. Jón var númer 30 í röðinni á fyrrnefndum lista dómnefndar en Kjarninn birti listann ásamt einkunnagjöf dómnefndar í síðustu viku.
„Nú er þetta einhver misskilningur sem virðist gæta varðandi þennan lista,“ segir Sigríður, spurð hvort ekki skjóti skökku við að hún tilnefni umsækjanda sem hafnað hafi svo neðarlega á lista dómnefndar.
„Dómnefndin tekur það fram að hún gerir ekki upp á milli þeirra, hún raðar þeim ekki upp í tölusett sæti, dómnefndin gerir það ekki sjálf, það geri ég ekki heldur,“ segir Sigríður. „Ég nefni það [í rökstuðningi ráðherra] að ég lít á 24 einstaklinga jafnhæfa, og alla þá meðal hæfustu umsækjenda, að þeir eru allir jafnhæfir,“ segir Sigríður.
Úr þessum 24 manna lista segist ráðherra hafa valið og lagt á heildstætt mat sem gert hafi verið út frá ýmsum sjónarmiðum, meðal annars þess að rétturinn sé skipaður nægilega mörgum einstaklingum með dómarareynslu þannig að rétturinn geti starfað hnökralaust.
Sigríður segir það vera alveg skýrt frá sínum bæjardyrum séð að lagt hafi verið heildrænt mat á umsækjendur. „Ég tel ekki tækt annað en að tiltaka dómara með áralanga dómarareynslu meðal þeirra hæfustu sem sækja um,“ segir Sigríður.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn segir Þorsteinn Arnaldsson tölfræðingur að niðurstaða dómnefndarinnar sé „lítið rökstudd og illa unnin,“ og segir að „fullyrða megi að rökstuðningur dómsmálaráðherra taki rökstuðningi nefndarinnar langt fram.“ Til að mynda hafi ekki komið fram hvernig einkunnir voru gefnar en vægi einstakra matsþátta hafi þó verið tekið fram.
Mbl.is hafði samband við Gunnlaug Claessen, formann dómnefndarinnar, og óskaði eftir upplýsingum um hæfnismatið og um það hvernig vægi einstakra þátta við einkunnagjöf væri ákvarðað. Gunnlaugur kýs að tjá sig ekki um málið í fjölmiðlum á þeim forsendum að til þess gæti komið að hann þurfi að gera grein fyrir málinu fyrir dómstólum í ljósi yfirlýsinga einstaka umsækjenda um að þeir hyggist leita réttar síns.
Spurð hvort hún telji það geta komið niður á trúverðugleika og trausti til þessa nýja dómstóls hvernig málinu hafi undið fram segir Sigríður svo alls ekki vera. „Nei alls ekki. Það liggja fyrir málefnaleg sjónarmið og það hljóta nú allir að fallast á það að það sé málefnalegt sjónarmið að það séu skipaðir dómarar við réttinn, við ákveðinn áfrýjunardómstól,“ segir Sigríður.