Ákvörðun Persónuverndar um að birting mynda af heimilum einstaklinga á vefsíðunni Já.is samræmist ekki persónuverndarlögum snýr aðeins að birtingarformi myndanna. Unnið er að því að breyta birtingu í samræmi við úrskurðinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Já.is.
Eins og mbl.is fjallaði um í dag telur Persónuvernd myndbirtinguna ekki samræmast lögunum, en um er að ræða myndir af heimilum sem birtast þegar leitað er eftir upplýsingum um fólk á síðunni.
Í tilkynningunni frá Já kemur fram að frá 2013 hafi Já birt 360° götumyndir á kortavef Já.is og hafi fyrirtækið ávallt fylgt ákvörðunum og tilmælum Persónuverndar í því verkefni. Úrskurður Persónuverndar sem kunngerður var í gær segi aðeins til um að birtingar á götumyndum séu ekki leyfilegar á sömu síðu og upplýsingar um heimili einstaklinga.
„Um er að ræða birtingarform myndanna og hefur fyrirtækið hafið vinnu nú þegar við að breyta birtingu og verkferlum í samræmi við úrskurð Persónuverndar,“ segir í tilkynningunni.
Götumyndirnar verða enn þá aðgengilegar á 360° kortavef Já.is og sé því einungis verið að breyta hvernig þær birtast.
Á myndum með fréttinni má sjá muninn á þeim birtingum sem eru í lagi og þeim sem þarfnast sérstaks samþykkis.