Í dag eru um 4% af samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með almenningssamgöngum á meðan afgangurinn deilist niður á einkabíla, gangandi og hjólandi umferð, en einkabíllinn er þar langfyrirferðarmestur. Samkvæmt áætlunum um borgarlínu og langtímaáætlun um ferðamynstur svæðisins er gert ráð fyrir að hlutfallið fari upp í 12%.
Samtals fara um 35 þúsund farþegar með vögnum Strætó á hverjum degi, en gangi áætlanirnar eftir mun fjöldi farþega í almenningssamgöngum meira en fjórfaldast á næstu 30 árum og verða 180 þúsund. Er þá meðal annars horft til þess að mannfjöldaspá gerir ráð fyrir að íbúum svæðisins muni fjölga um 70 þúsund fram til ársins 2040. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Hrafnkels Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, á kynningarfundi um fyrirhugaða borgarlínu í dag.
Hrafnkell sagði að sveitarfélögin væru í dag stödd á tímamótum, það væri samgöngubylting í gangi og vísaði þar til rafvæðingar bílaflotans og sjálfstýringar sem er enn í þróun. Hann sagði borgarlínukerfið ekki vera kerfi sem yrði úrelt með tæknibreytingum, heldur myndi það virka sem grunnur á samgöngukerfi borgarinnar í gegnum slíka þróun.