Birting mynda af heimilum einstaklinga á vefsíðunni Já.is þegar leitað er eftir upplýsingum um þá á síðunni samræmist ekki lögum um persónuvernd. Þetta kemur fram í ákvörðun Persónuverndar sem birt var í gær.
Í ákvörðuninni kemur fram að Persónuvernd hafi borist ábending um vinnslu persónuupplýsinga á vefsíðunni þar sem myndir af heimilum einstaklinga birtast sjálfkrafa þegar þeim er flett upp. Persónuvernd hóf athugun á málinu í lok nóvember í fyrra.
Þarf Já hf. nú að senda Persónuvernd skriflega lýsingu á því hvernig framvegis verði tryggt að slík birting fari ekki í bága við lögin. Skal sú lýsing berast eigi síðar en 19. júní næstkomandi.
Í svarbréfi frá Já hf. kemur fram að skráningarnúmer ökutækja, andlit og annað því um líkt sé sérstaklega afmáð af myndum. Ekki sé því einhlítt að um persónuupplýsingar sé að ræða. Þá kemur fram í bréfinu að þegar kemur að ákvæði laganna um samþykki aðila þurfi það ekki að vera yfirlýst heldur geti það verið veitt í verki. Auk þess sé starfsemin öllum ljós, auðskiljanleg og almenningi kunn.
Já hf. vísar einnig til þess að vinnsla persónuupplýsinga eigi sér stoð í lögunum þar sem hún sé nauðsynleg svo fyrirtækið geti gætt lögmætra hagsmuna. Starfsemin eigi sér málefnalegan tilgang, ekki síst sem vegvísir og sé nátengd kjarnastarfsemi Já hf. sem upplýsingaveitu um símanúmer. Einnig er vísað í atvinnu- og samkeppnishagsmuni þar sem Já hf. sé meðal annars í samkeppni við Google.
Loks segir fyrirtækið að Já hf. hafi borist beiðnir um að myndir af heimilum einstaklinga, sem birtast þegar nafn þeirra er slegið inn í leitarvél á vefsíðunni, verði fjarlægðar. Slíkar beiðnir séu fáar, eða 1-5 í mánuði. Já hf. hafi í öllum tilvikum orðið við þeim.
Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað í 8. gr. persónuverndarlaga um lögmæta hagsmuni og 45. gr. laga um fjarskipti þar sem segir að persónuupplýsingar sem skráðar séu í prentuðum og rafrænum skrám og í upplýsingaþjónustu um símanúmer skuli takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á áskrifanda nema áskrifandinn hafi veitt ótvíræða heimild til annars. Myndir af heimilum einstaklinga teljast að mati Persónuverndar ekki til slíkra upplýsinga.
Þá segir í niðurstöðunni að athafnaleysi skráðra nægi ekki svo hægt sé að líta á að þeir hafi samþykkt vinnsluna. Auk þess hafi Já.is borið að upplýsa hina skráðu og fræða þá um vinnsluna, þ.e. birtingu mynda af heimilum þeirra, áður en hún fór fram. Því sé birting myndanna ekki í samræmi við lög.