Maður er látinn eftir að ráðist var á hann í Mosfellsdal. Mikill viðbúnaður lögreglu hefur verið á vettvangi í kvöld og var sérsveitin kölluð út, eins og mbl.is hefur greint frá.
Greint er frá því að maðurinn hafi látist á fréttavef RÚV, þar sem heimildir eru sagðar herma að málið tengist handrukkun. Þá hafi sex manns verið handteknir.
Lögreglan hefur varist allra fregna, en samkvæmt upplýsingum mbl.is er von á tilkynningu frá lögreglu um málið síðar í kvöld.
„Við erum að rannsaka þarna mjög alvarlegt mál, alvarlega líkamsárás. Það hafa verið handteknir menn í tengslum við það,“ sagði Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.