Karlmaður um fertugt var úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi í kvöld, en þangað var hann fluttur eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Mosfellsdal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Segir þar að lögreglu hafi borist tilkynning um árásina kl. 18.24 og fjölmennt lið farið þegar á vettvang. Rannsókn málsins er þá sögð umfangsmikil, og að fimm karlar og ein kona hafi verið handtekin í þágu hennar.
Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu, að sögn lögreglu.
„Við erum að rannsaka þarna mjög alvarlegt mál, alvarlega líkamsárás. Það hafa verið handteknir menn í tengslum við það,“ sagði Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld, en lögreglan hefur fram til þessa varist allra fregna.