Magnús Heimir Jónasson
Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hefur ákveðið að stefna ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar Alþingis að skipa hann ekki dómara við Landsrétt, en Ástráður er einn þeirra sem hæfisnefnd mat hæfasta í starfið.
Fjölmargir dómarar komu að skipunarferlinu, hvort sem þeir voru umsækjendur, meðmælendur eða sátu í hæfisnefnd, og er því líklegt að sérstakt hæfi dómara verði til skoðunar í máli Ástráðs.
Það gæti reynst erfitt að manna dóm, á öllum dómstigum, með dómurum sem hafa ekki haft neina aðkomu að skipunarferlinu eða tengsl við þá sem sóttu um dómarastöðu við Landsrétt.
„Ég myndi telja að það yrði erfitt að manna dóm í slíku máli. Það er eiginlega ekki hægt að manna þetta með fólki innan Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómarar við Héraðsdóm Reykjaness eru í sömu stöðu. Það þyrfti þá að sækja dómendur annars staðar frá,“ segir Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, en tveir dómarar úr Héraðsdómi Reykjaness voru skipaðir í Landsrétt og sex úr Héraðsdómi Reykjavíkur og er því um samstarfsfólk að ræða.