Sundlaugin lokuð og enn fundað

Laugarvatn í Bláskógarbyggð.
Laugarvatn í Bláskógarbyggð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sundlaugin og íþróttahúsið á Laugarvatni lokaði 1. júní síðastliðinn. Sveit­ar­stjórn Blá­skóga­byggðar og rík­ið vinna að því að finna lausn á rekstri íþrótta­manna­virkjanna eftir að Háskóli Íslands hætti rekstri þeirra nýverið um leið og námi í íþróttafræðum lauk þar í vor og fluttist til Reykjavíkur. 

„Þetta tekur tíma. Við erum að vinna í þessu,“ segir Valtýr Valtýsson, sveit­ar­stjóri Blá­skóga­byggðar, um rekstur íþróttamannvirkjanna. Viðhald á mannvirkjunum er brýnt og er þörfin á því uppsöfnuð. Valtýr vildi ekki greina nákvæmlega hver viðhaldskostnaðurinn er. Unnið er að því að fara yfir ástand og viðhald eignanna. 

„Við leggjum ríka áherslu á að leysa þetta mál sem fyrst því mannvirkin eru mikilvæg fyrir samfélagið,“ segir Valtýr. Hann er vongóður um að það náist í þessum mánuði. 

Nokkrir fundir hafa verið með sveitarstjórninni og fjármála- og mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að finna lausn á málinu. Fyrsti fundurinn var 12. maí síðastliðinn og í næstu viku verður næsti fundur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka