Ákvörðun um gæsluvarðhald síðar í dag

Frá aðgerðum sérsveitarinnar í gærkvöld.
Frá aðgerðum sérsveitarinnar í gærkvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það eru allir enn í haldi sem voru handteknir í gær,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is en maður á fertugsaldri lést á Landspítalanum í Fossvogi í kjölfar þess að hann varð fyrir alvarlegri líkamsárás við heimili sitt að Æsustöðum í Mosfellsdal.

Tekin verður ákvörðun síðar í dag um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim sex einstaklingum sem handteknir voru og þá hverjum þeirra, segir Friðrik Smári, spurður um það. Hinir handteknu voru yfirheyrðir í nótt og fram undir morgun. Verið er nú að fara yfir framburði og raða saman atburðarásinni. Ákvörðun um framhaldið verði síðan tekin á grundvelli þess.

Spurður um tvær bifreiðar sem hald var lagt á í tengslum við málið og hvort leit í þeim hafi skilað árangri með tilliti til rannsóknar málsins segir Friðrik Smári að ekki séu veittar upplýsingar um það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka