Dóttirin svaf meðan á árásinni stóð

Arnar Jónsson Aspar og Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir eignuðust dóttur fyrir …
Arnar Jónsson Aspar og Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir eignuðust dóttur fyrir tíu dögum. Ljósmynd úr einkasafni birt með leyfi fjölskyldunnar

Afi barnsmóður Arnars Jónssonar Aspar, mannsins sem lést eftir árás í Mosfellsdalnum í gær, varð vitni að árásinni og fékk í kjölfarið fyrir hjartað og var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. Þar dvelur hann enn. Tíu daga gömul dóttir Arnars og Heiðdísar Helgu Aðalsteinsdóttur var sofandi er hópur árásarmanna mætti að heimili fjölskyldunnar og réðst með hrottafengnum hætti á Arnar.

„Hún horfði upp á þessa árás og er í miklu áfalli,“ segir Klara Ólöf Sigurðardóttir, móðursystir Heiðdísar Helgu, í samtali við mbl.is. Prestur er nú á leið til hennar til að veita henni áfallahjálp. „Hún horfði upp á mennina berja manninn sinn,“ útskýrir Klara. Hún segir Heiðdísi hafa reynt að fá þá til að hætta barsmíðunum meðal annars með því að minna þá á að Arnar ætti tíu daga gamla stúlku og fjölskyldu.

„Hann varði fjölskyldu sína“

Afi Heiðdísar var í kvöldmat hjá fjölskyldunni að Æsustöðum í Mosfellsdal er árásarmennirnir börðu að dyrum. Hann er á áttræðisaldri og veill fyrir hjarta. „Hann pabbi liggur inni á hjartadeild núna,“ segir Klara. Hún segir hann með meðvitund en frekari upplýsingar um líðan hans hafi hún ekki í augnablikinu. Klara segir móður sína hafi látist nýverið og fleiri alvarleg áföll dunið yfir fjölskylduna á stuttum tíma. „Þetta er hrikalegt áfall,“ segir Klara.

Foreldrar Arnars búa í næsta húsi og sáu einnig til árásarmannanna. Arnar hljóp frá heimili sínu er hann sá í hvað stefndi til að hlífa fjölskyldunni. „Hann varði fjölskylduna sína,“ segir Klara.

Létu höggin dynja á manni hennar

Heiðdís hefur sagt Klöru og móður sinni, Helgu Sigurðardóttur, frá árásinni. Hún segir að mennirnir hafi látið höggin dynja á manni hennar og ekið yfir fætur hans. Endurlífgun var reynd á vettvangi en án árangurs. Arnar var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi síðar um kvöldið. Hann var tæplega fertugur, fæddur árið 1978. Einn árásarmannanna var æskuvinur Arnars.

„Litla stúlkan var sofandi inni meðan á þessu gekk,“ segir Klara. Stúlkan er fyrsta barn Heiðdísar en Arnar átti fyrir eldri stúlku. Sú var ekki heima er árásin átti sér stað.

Klara og Helga fóru að Æsustöðum í dag til að sækja föt og annað dót fyrir litla barnið. Heiðdís dvelur nú með dóttur sína hjá móður sinni. „Hún er með tíu daga gamla stúlku og er dugleg að hugsa um hana,“ segir Klara. „En hún er í miklu áfalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert