Heima með nýfætt barn sitt

Lögreglan á vettvangi við Æsustaði í Mosfellsdal í gærkvöldi.
Lögreglan á vettvangi við Æsustaði í Mosfellsdal í gærkvöldi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á fertugsaldri sem ráðist var á í Mosfellsdal í gær var heima með konu sinni og nýfæddu barni er árásarmennina bar að garði. Þeir réðust svo á hann, m.a. með kylfum. Þá var bíl ekið yfir fætur hans, að því er fram kemur í frétt Vísis um málið. Maðurinn lést á sjúkrahúsi skömmu síðar. Hann var fæddur árið 1978 og hafði eignast dóttur fyrir nokkrum dögum.

Sex voru handteknir, fimm karlar og ein kona. Samkvæmt heimildum RÚV er Jón Trausti Lúthersson, sem tengist glæpasamtökunum Outlaws, einn hinna handteknu. Flestir hinna handteknu hafa komið við sögu lögreglu áður. Þeirra á meðal eru samkvæmt heimildum Vísis bræðurnir Marcin Wieslaw Nabakowski og Rafal Marek Nabakowski sem hlutu í febrúar dóm fyrir skotárás í Breiðholti.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við mbl.is að notkun vopna í árásinni sé m.a. eitt af því sem verið sé að skoða við rannsóknina. Lögreglan lagði í gærkvöldi hald á tvo bíla í tengslum við málið. Lagt var hald á annan þeirra, amerískan pallbíl, við Æsustaði í Mosfellsdal, þar sem árásin átti sér stað. Hald var lagt á hinn bílinn á Vesturlandsvegi er þrír árásarmannanna voru handteknir. Fram hefur komið í fréttum RÚV að árásin tengist handrukkun. Í frétt Vísis segir að hópurinn hafi barið að dyrum að heimili mannsins, kona hans hafi komið til dyra og fólkið beðið um að ná tali af manni hennar. Í kjölfarið var svo ráðist á hann með svo hrottafengnum hætti að hann lést.  

Yfirheyrslur standa yfir

Grímur vill ekki staðfesta að málið tengist uppgjöri í fíkniefnaheiminum. Aðspurður segir hann árásina ekki tilviljanakennda. Árásarmennirnir hafi haft tengsl við fórnarlamb sitt. „Við erum að reyna að ná utan um þennan atburð og það sem gerðist,“ segir Grímur.

Sjónarvottur að árásinni tilkynnti hana til lögreglu kl. 18.24 í gærkvöldi. Fleiri en eitt vitni varð að árásinni.

Sexmenningarnir sem voru handteknir voru yfirheyrðir fram eftir nóttu og hafa yfirheyrslur haldið áfram í morgun. Þeir eru enn allir í haldi lögreglu og tekin verður ákvörðun um það síðar í dag hvort að farið verði fram á gæsluvarðhaldi yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka