Lögðu hald á Dodge Ram-bifreið

Lögreglan lagði hald á Dodge Ram-pallbifreið á vettvangi.
Lögreglan lagði hald á Dodge Ram-pallbifreið á vettvangi. mbl.is/Ófeigur

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á bláa bifreið af gerðinni Dodge Ram Club Cab 2500 í Mosfellsdal í gærkvöldi.

Maður á fertugsaldri lét lífið á Landspítalanum í Fossvogi í kjölfar þess að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás við heimili sitt að Æsustöðum í Mosfellsdal.

Lögreglan hélt með bifreiðina  brott, en fólkið kom á bifreiðinni á vettvang í aðdraganda árásarinnar. Að sögn Gríms Grímssonar, yfirmanns rannsóknardeildarinar, bendir ekkert til þess að bifreiðin tengist málinu að öðru leyti.

„Almennt séð í svona málum er lagt hald á bíla ef þeir tengjast þeim sem eru handteknir,“ segir hann; haldlagningin sé til að hægt sé að leita í bifreiðum.

Bifreiðin er merkt fyrirtækinu Dogsledding Iceland, en í samtali við Morgunblaðið sagði eigandi fyrirtækisins að bifreiðin hefði verið seld fyrir nokkrum árum.

Grímur sagði í samtali við Vísi eftir miðnætti að lagt hefði verið hald á aðra bifreið á Vesturlandsvegi. 

Fjölmennt lið lögreglu var kallað á vettvang

Rannsókn málsins er umfangsmikil, en hana annast miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Grímur Grímsson segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort fólkið verði úrskurðað í gæsluvarðhald.

Tilkynning um árásina barst neyðarlínu klukkan 18.24 og var fjölmennt lið lögreglu sent á staðinn auk slökkviliðs- og sjúkrabifreiða. Sérsveit Ríkislögreglustjóra, vopnuð lögregla, var einnig kölluð út.

Afleggjara upp að byggð við Æsustaði var lokað fyrir umferð og stóðu aðgerðir yfir fram eftir kvöldi.

Á vef RÚV er fullyrt að málið tengist handrukkun og að hin handteknu hafi áður komið við sögu lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka