Fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar hefur fallið en Vinstri grænir sækja í sig veðrið, samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið um fylgi framboðslista til borgarstjórnar.
Staða meirihlutans í borginni er sterk, samkvæmt könnuninni.
Þar kemur fram að hann er með nánast sama fylgi og hann fékk í kosningunum árið 2014, eða 61,4%.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist 22,3% samanborið við 31,95 í kosningunum.
Fylgi Bjartrar framtíðar fer úr 15,6% í 4,6%.
Vinstri grænir hafa aftur á móti tvöfaldað fylgi sitt. Þeir mælast með 20,8% atkvæða en þeir fengu 8,3% atkvæða árið 2014.
Fylgi Pírata mælist 13,7% en í kosningunum var það 5,9%. Í september 2015 var fylgi flokksins komið í 27,5%.
Sjálfstæðismenn mælast með 26,8% fylgi en voru með 25,7% í kosningunum og er fylgi flokksins því nánast óbreytt.
Framsókn og flugvallarvinir mælast með 6,9% fylgi en flokkurinn fékk 10,7% í kosningunum árið 2014.
Aðrir flokkar mælast með 4,8% í könnun Gallup.
Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri grænir og Píratar mynduðu meirihluta eftir kosningarnar í maí 2014. Þeir fengu samtals 61,7% í kosningunum og 9 borgarfulltrúa af 15.
Sjálfstæðismenn, sem eru í minnihluta, fengu 25,7% í kosningunum og fjóra borgarfulltrúa. Framsókn og flugvallarvinir fengu 10,7% og tvo borgarfulltrúa.