Svokallaðir fuglakragar sem ætlaðir eru fyrir ketti njóta aukinna vinsælda hérlendis. Kragarnir eru litaðir skærum litum vegna þess að flestir fuglar hafa sérlega næmt litaskyn. Þar af leiðandi geta fuglar komið auga á ketti mun fyrr ef þeir eru með kragann og forðað sér frá hættunni.
Aftur á móti geta ófleygir ungar áfram verið í hættu þar sem þeir geta ekki komið sér burt í snatri. Kraginn er hólkur sem er saumaður úr tauefni og er svo þræddur utan um hálsól kattarins.
Að sögn Jóns Arnars Kristinssonar, starfsmanns Dýraspítala Garðabæjar, hefur sala fuglakragans aukist mjög hjá þeim frá síðasta sumri og á þessu ári. Þá segir Jón að mikil vinna liggi á bak við litasamsetninguna á krögunum.Til dæmis er blár litur notaður að til þess að skerpa skilin við bjartari liti á krögunum.
Aðspurður hvort dæmi séu um að kragarnir hafi angrað ketti sem þeim skrýðast, sagðist Jón ekki þekkja til þess og nefndi að það tæki kettina stuttan tíma að venjast kraganum.