Leiguverð hækkar sem og stuðningur

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Félagsbústaðir hafa hækkað leiguverð á þeim íbúðum sem félagið á og leigir út, en á fimmtudaginn var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur að hækka leigu félagsins um 5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Félagið er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar, en í tilkynningu frá félaginu segir að hækkun húsnæðisverðs hafi leitt til aukins rekstrarkostnaðar meðal annars vegna hækkunar fasteignamats og fasteignagjalda.

Samhliða þessari hækkun mun Reykjavíkurborg hækka sérstakan húsnæðisstuðning bæði til leigutaka félagsins og til þeirra sem leigja á almennum markaði. Segir í tilkynningunni að með þessu eigi greiðslubyrði leigutaka Félagsbústaða að jafnaði að haldast óbreytt. Hækkunin mun taka gildi 1. ágúst næstkomandi.

Félagsbústaðir voru reknir með miklum hagnaði á síðasta ári, en hann má að langstærstum hluta rekja til hækkunar á fasteignaverði. Segist félagið ekki ætla að innleysa þann hagnað með sölu eigna, heldur þvert á móti fjölga þeim íbúðum sem félagið á.

Félagsbústaðir eru félag að fullu í eigu Reykjavíkurborgar.  Félagið á, rekur og leigir út um 2.500 íbúðaeiningar í Reykjavík, svo sem almennar félagslegar íbúðir, búsetukjarna og þjónustubúðir fyrir aldraða. Er félagið ekki rekið í hagnaðarskyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert