Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, segist vera ósáttur við að Ahmad Seddeeq, trúarlegur leiðtogi (ímam) Menningarseturs múslima, sem er næststærsta félag múslima á Íslandi, skuli hafa sett myndband með samsæriskenningu um eftirmál hryðjuverkaárásarinnar á Lundúnabrú á fésbókarsíðu Menningarseturs múslima, eins og fram kom í frétt DV 7. júní sl.
Samsæriskenningin í myndbandinu gekk út á að einhverskonar leikrit sé í gangi eftir árásirnar og myndbandið sýndi störf lögreglu og annarra á þann hátt. Ahmad hefur viðurkennt í samtali við DV að hafa sjálfur sett myndbandið á síðuna. Myndbandið hefur nú verið fjarlægt af fésbókarsíðu Menningarseturs múslima, en í staðinn er komin færsla sem leggur áherslu á að félagið fordæmi árásirnar og að fólk reyni að vera yfirvegað og halda sig við rök og staðreyndir í umræðu um málið.
„Menn verða að bera ábyrgð á því sem þeir setja svona fram,“ segir Salmann og er hneykslaður á að ímam Menningarseturs múslima hafi deilt þessu efni, ekki síst stöðu hans vegna.
Salmann hefur jafnframt áhyggjur af því að einfalt fólk gæti látið blekkjast.
„Félag múslima á Íslandi fordæmir árásirnar og vonar að friður komist á í heiminum,“ segir Salmann, en sendiherra Bretlands heimsótti Félag múslima á Íslandi í fyrradag og félagið bað hann fyrir samúðarkveðjur til Bretlands og til allra sem eiga um sárt að binda vegna árásanna. Ekki náðist í Ahmad Seddeeq eða talsmenn Menningarseturs múslima við vinnslu fréttarinnar.