Ný göng óhjákvæmileg

Gísli Gíslason, einn af forvígismönnum Spalar.
Gísli Gíslason, einn af forvígismönnum Spalar.

„Norðmenn trompa okkur í þessum málum,“ segir Gísli Gíslason, einn forsvarsmanna Spalar sem á og rekur Hvalfjarðargöng, um samgönguáætlanir Norðmanna. Hann segir aðrar Norðurlandaþjóðir átta sig betur á mikilvægi góðra samgangna og telur að ný Hvalfjarðargöng séu óhjákvæmileg vegna aukinnar umferðar.

Aðgerðir Norðmanna og Færeyinga jákvæðar

mbl.is fjallaði í vikunni um stórtækar áætlanir Norðmanna um að byggja 26,7 kílómetra löng jarðgöng undir sjó. Gísli segir aðgerðir Norðmanna afar jákvæðar. „Þeir eru dálítið að trompa okkur.“ Hann bætir svo við að það sama eigi við um Færeyinga. „Færeyingar eru einnig að búa til göng. Þau eru 20 kílómetra löng á milli Rúnavíkur og Þórshafnar. Það er 40 milljarða króna verkefni.“

Gísli segir Norðmenn og Færeyinga löngu hafa áttað sig á að bættar samgöngur með jarðgöngum hafi gríðarleg áhrif á búsetuskilyrði. Þeir séu framsýnni. „Við höfum verið seinni til en sömu staðreyndir eiga auðvitað líka við um okkur Íslendinga. Þetta er öryggismál og búsetuskilyrðismál.“

„Á liðnum árum hafa menn ekki litið á þetta sem …
„Á liðnum árum hafa menn ekki litið á þetta sem mjög aðkallandi verkefni.“ mbl.is/Sigurður Bogi

Öryggismál vegfarenda efst í forgangi

Framtíð Hvalfjarðarganga og möguleg endurnýjun þeirra er nú í skoðun hjá sérstakri nefnd á vegum Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Framtíð ganganna hefur lengi verið óljós og Gísli segir ekki víst hvenær niðurstöður liggja fyrir. „Mín skoðun er og hefur verið býsna mjög lengi, að ný Hvalfjarðargöng séu óhjákvæmileg og þar eru öryggismál vegfarenda efst í forgangi.“

Hann segist lengi hafa talað fyrir tvöföldun ganganna við litlar undirtektir. „Á liðnum árum hafa menn ekki litið á þetta sem mjög aðkallandi verkefni en nú í ljósi þróunar umferðar hefur mönnum orðið æ ljósara að tvöföldun ganganna er óhjákvæmileg innan tiltölulega skamms tíma. Menn hafa einhvern tíma en hann telst í fáum árum,“ segir Gísli.

15 milljarða verkefni

Gísli segir það nauðsynlegt að byggja sjálfstæð göng við hliðina á núverandi göngum með öryggisgöngum á milli hinni eldri og nýrri ganga. „Ég held að fáum detti í hug að það sé önnur lausn á borðinu.“ Hann segir að kostnaður við slík framkvæmd sé áætlaður um 15 milljarðar króna.

Gísli segir að þegar litið sé til samgönguverkefna annarra Norðurlanda þá sé þetta ekki stór upphæð. Hvalfjarðargöng séu nauðsynlegur hluti af samgöngum Íslendinga. „Hvalfjarðargöng eru svo góð samgöngubót að það má ekki sofna á verðinum þegar kemur að þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert