Guðni rifjar upp kynni af ananasmanni

Leiðir Guðna og Panopoulos lágu óbeint saman fyrr á þessu …
Leiðir Guðna og Panopoulos lágu óbeint saman fyrr á þessu ári. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir fjölskuldu og vinum hins kanadíska Sam Panopoulos, samúðarkveðjur vegna andláts hans, en hann lést á fimmtudag, 83 ára að aldri.

Panopoulos þessi vann sér það til frægðar að setja fyrstur allra ananas á pizzu og var höfundar hinnar margumdeildu Hawaiian pizzu, sem sumir elska en aðrir hata. Skemmst er að minnast þess að Guðni lýsti því yfir fyrr á þessu ári að það ætti að banna ananas á pizzu. Hann er því í síðarnefnda hópnum. Guðni komst í heimsfréttirnar vegna þessarar yfirlýsingar sinnar.

Guðni sendir kveðjuna í gegnum Facebook og þar segir meðal annars: „Af fréttum að dæma var Sam þessi sómamaður, með skopskynið í lagi. Á óbeinan hátt lágu leiðir okkar saman fyrr á þessu ári þegar ég spjallaði í gamni við nemendur Menntaskólans á Akureyri um pítsur og þetta tiltekna álegg – sem reyndar væri best að banna ef út í það væri farið.“ Í frétt BBC af andláti Panopoulos er það einmitt rifjað upp að hann hafi ekki skilið andúð forseta Íslands á ananas á pizzu, enda gæfi hann sérlega frískandi og sætt bragð.

Skiptar skoðanir eru á Hawain pizzu. Sumir elska hana, aðrir …
Skiptar skoðanir eru á Hawain pizzu. Sumir elska hana, aðrir hata. Wikipedia

„Sagan af „stóra ananasmálinu“ er gott dæmi um það að við búum í heimsþorpi. Góðlátlegt grín mitt á Akureyri varð fréttaefni um víða veröld. Um leið gaf sú óvænta athygli ágætis tilefni til að fjalla um valdmörk þjóðarleiðtoga og frelsi fólks til að gera það sem það vill - svo lengi sem það bitnar ekki á öðrum,“ segir Guðni jafnframt í Facebook-færslunni, og rifjar að lokum upp yfirlýsingu sem hann gaf út í kjölfar málsins:

„Mér finnst ananas góður, bara ekki á pítsu. Ég get ekki sett lög sem banna fólki að setja ananas á pítsuna sína. Mér finnst gott að hafa ekki þau völd. Forsetar eiga ekki að hafa alræðisvald. Ég myndi ekki vilja gegna þessa embætti ef ég gæti sett lög sem bönnuðu það sem mér mislíkar. Ég myndi ekki vilja búa í þannig landi. Ég mæli með fiskmeti á pítsu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert