Sérsveitarmenn gættu litahlaupara

Um 20 lögreglumenn sáu til þess að litahlaupið færi vel …
Um 20 lögreglumenn sáu til þess að litahlaupið færi vel fram, þar á meðal nokkrir sérsveitarmenn. mbl.is/Hanna

Árvökulir litahlauparar hafa veitt því athygli að nokkrir sérsveitarmenn í fullum skrúða hafa staðið vaktina í miðborginni í dag, en þar fer fram hið svokallaða Litahlaup eða Color Run.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að sérsveitarmennirnir séu á svæðinu við almenn löggæslustörf, en um 20 lögreglumenn starfa við atburðinn með einum eða öðrum hætti í dag.

„Lögreglan er við eftirlit á svæðinu og sérsveitarmenn ganga til almennra starfa eins og aðrir lögreglumenn á landinu. Lögreglan er við mannfreka atburði. Hún er viðstödd og með eftirlit. Þetta er hluti af því ferli,“ segir Ásgeir um löggæsluna, en hlaupið hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig fram að þessu.

Ásgeir getur hins vegar ekki svarað þeirri spurningu hvort það sé sérstök ástæða fyrir því að sérsveitarmenn hafi verið valdir til almennra löggæslustarfa við þennan tiltekna viðburð í dag.

Aðspurður hvort eftirlitið í hlaupinu í dag sé meira en áður við sama viðburð svarar Ásgeir: „Meira og ekki meira. Þetta eru svo sem ekki margir lögreglumenn sem eru hérna í miðborginni. Við erum með umferðardeildina, reiðhjólamenn og sérsveitarmenn sem eru partur af löggæslusviði landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert